133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[18:05]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um frumvarpið sem umhverfisnefnd flutti. Hins vegar varð nokkur umræða um það þegar það var flutt og af því tilefni er rétt að upplýsa þingheim um að nefndin fór yfir málið aftur á fundi sínum. Niðurstaða nefndarinnar var sú að þetta væri gott mál og mikilvægt að það næði fram að ganga. Í örstuttu máli þá gengur þetta út á að hér er um að ræða lækkun, eða sem sagt það kom til vegna lækkunar á virðisaukaskatti úr 24,5% í 7%, þar sem virðisaukaskatturinn var endurgreiddur til Endurvinnslunnar, virðulegi forseti, en þar af leiðandi lækkaði skilagjald til Endurvinnslunnar en það hafði verið 10 kr. Til að sjá til þess að það verði áfram 10 kr., vegna þess að það er vilji löggjafans og held ég allra þeirra sem hafa áhuga á að góð skil séu á þessum vörum, þá er skilagjaldið hækkað sem því nemur þannig að Endurvinnslan fái áfram 10 kr.

Í rauninni er ekki rétt, virðulegi forseti, að segja að það sé Endurvinnslan sem fái 10 kr., því auðvitað eru það þeir sem skila dósum og öðru slíku sem fá það þegar þeir koma því í réttar hendur.

Það ánægjulega hefur skeð að það hafa verið mjög mikil og góð skil. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé heimsmet þegar kemur að skilum sem menn vilja m.a. þakka 10 kr. skilagjaldi.

Þannig að niðurstaða nefndarinnar var sú að hér væri um gott mál að ræða sem sé mikilvægt að fari hér í gegnum þingið núna og mér var falið sem formanni nefndarinnar að upplýsa þingheim um það.