133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[18:11]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil bara þakka hv. þingmanni fyrir skýr svör. Þau sýna að hann og nefndin hafa lagt sig í framkróka við að skilja þetta flókna mál. Ég hafði ekki greind til þess við hina fyrri umræðu en nú eftir að hv. þingmaður hefur skýrt málið fyrir mér þá liggur það ljóst fyrir.

Í fyrri ræðu sinni sagði hv. þingmaður að Íslendingar ættu sennilega heimsmet í skilum vegna þessa gjalds. Ég tel að svo sé og hafi verið um langan aldur, þetta hefur lukkast einstaklega vel.

Án þess að tefja umræðuna langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi ekki a.m.k. messunnar virði að skoða hvort ekki ætti að útfæra þetta á aðrar umbúðir. Ég hef löngum verið talsmaður þess að skilagjald væri líka sett á ýmiss konar pappaumbúðir eða blöndu af pappa og plasti, t.d. fernur sem eru undir ýmiss konar mjólkurvarning sem við sjáum víðs vegar á dreif, því miður á stöðum þar sem ekki á að vera neitt slíkt. Skilagjaldið hefur bersýnilega þjónað mjög vel þeim tilgangi sínum að vera hagrænn hvati til þess að fá menn til að skila svona.

Hvað segir hv. þingmaður við því? (HBl: Fernur undir ávaxtasafa, til dæmis.) Til dæmis, alls konar bland. Sömuleiðis af því hv. þingmaður segir að hér sé tjaldað til einnar nætur — ég vona að það sé ekki einkunnin sem hann gefur hæstv. ríkisstjórn í umhverfismálum — en fyrst á að endurskoða lögin, sagði hann ekki 2008?, er þá ekki mál til komið að hv. þingmaður taki undir með fyrrverandi umhverfisráðherra varðandi þann part sem íslenska ríkið á enn þá í þessu batteríi öllu, að honum verði fyrirkomið í höndum einkaaðila og þetta verði allt saman selt? Ég hef verið þeirrar skoðunar.