133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

umhverfismengun af völdum einnota umbúða.

693. mál
[18:12]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir innlegg hans í umræðuna. Hv. þingmaður veit að svar mitt við því að ríkið eigi að selja þessi 18,5% er einfalt. Það er já og alveg löngu kominn tími á það.

Varðandi málið í heild sinni og þessi mál í heild sinni þá má segja að við séum með tvöfalt kerfi. Við erum með úrvinnslusjóðinn sem er með ökutækin, kælimiðlana, hjólbarðana, pappa og pappírsumbúðir, og plastumbúðir ýmiss konar, kvikasilfursvörur og lýsisgeyma, vörur í ljósmyndaiðnaði, prentliti og rafhlöður. Þar er það þannig að menn greiða þetta í raun bara í vörunni og innheimta þetta með öðrum hætti. En síðan eru það þessar dósir og dollur og plastflöskur. Þetta hefur gengið vel í það heila og sérstaklega þar sem kemur að þáttum varðandi skilagjaldið.

Það er ánægjulegt vegna þess hvernig eignasamsetningin í Endurvinnslunni er. Það má t.d. nefna að gosdrykkjaframleiðendur skilja þetta mjög vel og það kom fram í nefndinni að þegar menn hafa farið út í vöruframleiðslu sem hefur ekki passað inn í það sem við erum með þá hafa þeir beitt framleiðendur þrýstingi þannig að þeir skipti því út sem hefur gengið eftir.

Við eigum eftir mjög stóran þátt sem eru mjólkurvörurnar. Það er skoðun mín og ég er sammála hv. þingmanni, ef ég skildi hann rétt, að það er mál sem við þurfum að taka á. Alveg lykilatriði. Það er gott að heyra viðhorf hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hvað þetta varðar. Ég lýsi mig sammála sjónarmiðum hans. Ég tel að margt gott hafi gerst í þessum málaflokki, sérstaklega sem snýr að Endurvinnslunni, og ánægjulegt að við eigum met hvað þetta varðar. Ég held að skilin séu núna um 86%, hafa rokkað frá 80–86%. Við eigum að taka fleiri vörur en þessar og ganga eins frá þeim málum.