133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[18:15]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, frá sjávarútvegsnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Steinar Inga Matthíasson og Sigríði Norðmann frá sjávarútvegsráðuneyti. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Hafnasambandi Íslands, Fiskistofu, Landssambandi smábátaeigenda og Persónuvernd. Enn fremur hefur nefndinni borist tilkynning frá ríkissaksóknara.

Frumvarp þetta er samið á grundvelli tillagna starfshóps sem skipaður var fulltrúum nokkurra ráðuneyta og er liður í baráttunni við að uppræta ólöglegar fiskveiðar innan fiskveiðilandhelgi Íslands og utan hennar. Er því einkum ætlað að veita íslenskum stjórnvöldum styrkari og skýrari heimildir til að grípa til aðgerða gegn veiðum erlendra skipa sem ekki samrýmast nánar tilgreindum alþjóðareglum á úthafinu.

Í frumvarpinu er það gert skýrara að skipum sem færð hafa verið inn á svarta lista svæðisbundinna fiskveiðistjórnarstofnana fyrir ólöglegar veiðar verði með sama hætti og erlendum skipum sem stundað hafa veiðar án leyfis úr stofnum sem flakka inn og út úr íslensku lögsögunni óheimilt að koma til íslenskra hafna. Frumvarpið miðar einnig að því að koma í veg fyrir aðgengi slíkra skipa að ýmiss konar þjónustu hvort sem hún er veitt í íslenskri höfn, innan fiskveiðilandhelgi Íslands eða utan hennar. Þá eru Fiskistofu og sjávarútvegsráðuneytinu í frumvarpinu fengnar víðtækar heimildir til gagnaöflunar við framkvæmd laganna. Loks felur frumvarpið í sér að erlend skip sem staðin hafa verið að ólöglegum veiðum samkvæmt íslenskum lögum um fiskveiðar eða nánar tilgreindum alþjóðareglum skuli ekki eiga þess kost að fá útgefin tímabundin leyfi til veiða í fiskveiðilandhelginni.

Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að verði frumvarpið að lögum muni það m.a. nýtast íslenskum stjórnvöldum í baráttunni gegn ólöglegum karfaveiðum á Reykjaneshrygg.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita Guðjón Hjörleifsson, Jóhann Ársælsson, Hjálmar Árnason, Jón Gunnarsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Jón Bjarnason.

Virðulegi forseti. Ég legg til að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.