133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

veiðar og vinnsla erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi.

643. mál
[18:26]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég mátti til með að víkja að þessu því ég held örugglega að það hafi verið núverandi hæstv. utanríkisráðherra sem hafi einmitt komið með þetta í fréttum, að það yrði bara að fara að beita klippunum aftur. Nú veit ég ekki hvað það er svo sem skynsamlegt innlegg af hálfu utanríkisráðherra inn í umræðuna í sjálfu sér en sýnir okkur kannski að við þurfum þá að vera reiðubúin til að láta það fylgja alvöru málsins.

Ég hef líka velt fyrir mér hinum umhverfislegu áhrifum. Þarna er oft og tíðum verið að veiða á svæðum sem eru mjög viðkvæm eins og karfamiðin og -svæðin eru, bæði hvað varðar botninn og eins þær fisktegundir sem verið er að veiða sem eru, að sumir segja, jafnvel í útrýmingarhættu eða hætta sé á því að stofninn skerðist verulega og tímgunarmöguleikar hans skertir, sömuleiðis umgengnin við lífríkið, við hafsbotninn.

Mér finnst allt þetta vera atriði sem við þurfum að taka með þegar við erum að tala um ólöglegar veiðar, ólöglegar veiðiaðferðir o.s.frv. Ég vildi draga þessa þætti inn í umræðuna. Það er ekki bara rétturinn til að veiða sem getur verið brotinn heldur líka með hvaða hætti það er gert og úr hvaða stofnum veitt er.

Mér finnst mjög alvarlegt þegar sjóræningjaskip, eins og hv. þingmaður kallar þau, eru að stunda ekki aðeins ólöglegar veiðar heldur líka veiðar á stofnum og tegundum sem ber að vernda eða eru í þeirri hættu að umgangast verður þær með þeim hætti. Þetta með klippurnar sem hæstv. utanríkisráðherra minntist á, kannski verður bara setja þær raunverulega um borð í skipin?