133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:46]
Hlusta

Frsm. sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er gert til þess að reyna að skerpa og efla starfsemi Verðlagsstofunnar. Ég er alveg sammála því að starfsemin er ekki mikil og spurningin er líka alltaf hvort menn séu að skila sínu eða ekki. Það fer líka töluvert eftir frumkvæðinu, það þýðir ekki eingöngu að bíða eftir að erindi komi inn um lúguna. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Það eru eiginlega ótrúlega fá mál sem hafa komið til Verðlagsstofu miðað við umræðu um þátttöku sjómanna í kaupum eða leigu á afla. Ég man eftir meðalverði, þá voru einhverjar reglur í gangi og mig minnir að hv. þm. nafni minn, Guðjón Arnar Kristjánsson, hafi sagt að það væri einhver 76%-regla sem væri útreikningsregla fyrir þetta lágmarksverð sem er gefið út. Við vorum einmitt að samþykkja það í gær varðandi byggðakvótann til viðmiðunar. En ég þekki þær reglur ekki alveg nákvæmlega.