133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:54]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Sýnir þetta ekki í heild sinni hvað þetta er gagnslaust? Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi heyrt eins og ég að sjómenn telji að þeir séu beittir afarkostum ef þeir fari og klagi undan því að þeir séu skyldaðir til þess að taka þátt í kvótaleigu eða kvótakaupum og þá eigi þeir á hættu að missa plássið. Stuðningur stéttarfélags þeirra er nú ekki meiri en svo. Ég er varla einn um að hafa heyrt þetta sagt.

Ég get nefnt dæmi um það ef út í það er farið, þar sem sjómenn hafa reynt að leita réttar síns í þessu og málsatvik voru talin svo óljós og stuðningur stéttarfélagsins var ekki meiri en svo að það eina sem viðkomandi hafði upp úr krafsinu var að hann var rekinn af skipinu.

Og þótt ég styðji þessar veiklulegu tilraunir til að styrkja þetta eftirlitskerfi þá er fjarri því að mér finnist þetta vera kerfi sem virkar. Fyrir mér er þarna bara verið að beita sjómenn þjófnaði. Það er verið meira og minna að hálflögleiða hann með því að búa til einhverja úrskurðarnefnd. Hún hefur fengið þrjú eða fjögur mál. Það virðist ekki vera neitt stórmál á ferðinni og ástæðulaust að vera taka það inn í þingið ef það er raunveruleikinn.

En raunveruleikinn er bara allt annar. Ég spyr því hv. þingmann: Finnst honum þetta frumvarp raunverulega vera að taka á þeim raunveruleika sem er? Það er að útgerðir eru að hýrudraga sjómenn með því að láta þá taka þátt í kvótakaupum eða kvótaleigu.