133. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2007.

íslenskur ríkisborgararéttur.

464. mál
[20:11]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við greiðum atkvæði um frumvarp um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Þeir þingmenn Samfylkingarinnar sem sitja í allsherjarnefnd hafa lagt fram breytingartillögu sem kosið verður um á eftir. Þetta eru tvær breytingartillögur, sú fyrri gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra verði heimilt að taka sérstakt tillit til aðstæðna flóttamanna og fólks sem veitt hefur verið dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þeir sem helst koma að þessum málaflokki, hvort sem litið er til Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rauða krossins eða Alþjóðahúss, mælast til að við gerum þessa breytingu, að taka tillit til þeirrar sérstöðu sem þessir tveir hópar hafa. Ég vona að þingheimur hér geti verið sammála okkur og samþykkt þessa tillögu.

Seinni breytingartillagan okkar lýtur að því að í 5. tölul. c-liðar 5. gr. er gert ráð fyrir að umsækjandi sem á að fá ríkisborgararétt geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðustu þrjú árin. Þetta er breyting frá núgildandi lögum í ljósi þess að nú er viðmiðið tvö ár. Hér er tímabilið lengt í þrjú ár og við teljum enga ástæðu til að svo sé gert.

Ef þessar breytingartillögur okkar verða felldar mun Samfylkingin sitja hjá við afgreiðslu frumvarpsins í heild sinni.