133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:38]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það eru tíðindi sem við hljótum að þurfa að taka alvarlega þegar við heyrum að alþjóðleg matsfyrirtæki lækki lánshæfismat á ríkissjóði Íslands. Það eru alvarleg tíðindi þegar staða Íslands gagnvart útlöndum versnar verulega.

Hæstv. forsætisráðherra sagði hér áðan að ríkið bæri ekki ábyrgð á lántökum fjármálastofnana og það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra. En hvað segir Fitch Ratings þegar verið er að fara yfir forsendur fyrir því að lækka lánshæfismatið á ríkissjóði? Jú, það má lesa úr því að meginástæðan fyrir lægra mati nú er mikil aukning á viðskiptahalla, aðallega vegna þess að erlendar vaxtagreiðslur hafa aukist mikið. Viðskiptahallinn nam 27% af landsframleiðslunni árið 2006 samanborið við rúm 16% árið 2005. Það sem Fitch Ratings segir er að ríkissjóður bregst ekki við þeirri miklu þenslu sem er hér á landi. Ríkissjóður stýrir ekki efnahagsmálum á þann hátt sem þarf að gera þegar þensla eins og nú er ríkir á Íslandi.

Hæstv. forsætisráðherra getur ekki sagt að ríkissjóður sé stikkfrí og það sé í raun ekki ríkissjóði að kenna þó að lánshæfismatið á sjóðnum sé lækkað af þessu alþjóðlega matsfyrirtæki. Það er skylda ríkisstjórnar á hverjum tíma að bregðast við því ástandi sem uppi er í efnahagsmálum og það er skylda ríkisstjórnar að bregðast við með þeim hætti að draga úr opinberum útgjöldum á sama tíma og einkageirinn eykur útgjöld sín. Það hefur þessi ríkisstjórn ekki gert og því horfum við nú framan í versnandi lánshæfismat á ríkissjóðnum og þjóðarbúinu í heild og við verðum, ríkissjóður verður að bregðast við en getur ekki látið reka á reiðanum þó að (Forseti hringir.) kosningar séu fram undan.