133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

lánshæfismat ríkissjóðs.

[20:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Ég verð að segja að frekar finnst mér rýr huggunin sem hæstv. forsætisráðherra á sér í þessu máli að eitt af þremur matsfyrirtækjum hafi ekki lækkað matið á Íslandi enn þá.

Enn undarlegri er málflutningur hæstv. fjármálaráðherra um að þetta komi ríkissjóði ekki við, þetta sé allt í lagi af því að ríkissjóður sé ekki virkur lántakandi á markaði. Hefur þeim yfirsést það, hæstv. ráðherrum, að það er talað um að líkurnar hafi aukist verulega á harðri lendingu í hagkerfinu? (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvernig fjármálaráðherrar almennt upplifa sig en það væri undarlegt ef það kæmi ríkissjóði ekki við ef hörð lending yrði í hagkerfinu. Hvað er það? Það er ávísun jafnvel á verulegan samdrátt og ætli það komi þá ekki eitthvað við tekjurnar hjá ríkissjóði? (Gripið fram í.) Hér er náttúrlega ekki fjallað um hlutina með ábyrgum hætti. Auðvitað geta menn gjammað hérna fram í ef þeim finnst þetta grínefni, gamanefni. Veruleikinn er sá að skuldabyrði þjóðarbúsins er að þyngjast alveg gríðarlega. Við erum orðin viðkvæmari og viðkvæmari gagnvart erlendum vöxtum og hvert ár í viðbót sem þjóðarbúið er keyrt áfram í viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun gerir þessa stöðu enn þá brothættari. Það er veruleikinn.

Það er því brýnna en nokkru sinni fyrr að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þar er ríkisstjórnin ekkert að leggja af mörkum. Hún lætur vaða á súðum og reynir að finna sér afsakanir í því að þetta sé allt í góðu lagi. Það var ómögulegt að heyra annað á málflutningi ráðherranna áðan.

Þá er það hvað? Það er sama afskiptaleysisveruleikafirringarstefnan áfram. Það er „Laissez–faire“–stefnan áfram í staðinn fyrir að horfast í augu við það að svona getur þjóðarskútan ekki siglt mörg ár í viðbót. Skuldaaukningin á síðasta ári er auðvitað gríðarleg og hreinar erlendar skuldir vaxa hratt. Með öðrum orðum, það er ekki nálægt því eignamyndun á móti lántökunni (Forseti hringir.) sem bætist við á hverju ári.