133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:25]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs hefur verið rætt allítarlega, bæði við 1. umr. og einnig í nefnd. Hér hafa verið fluttar mjög ágætar ræður um málið. Ég vísa t.d. til ræðu hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar áðan.

Ég tek undir þau orð um þetta kerfi Verðlagsstofu skiptaverðs, mér finnst það bara vera úrelt og ekki virka. Það ber að vera kerfi sem tryggir að samningar við sjómenn séu haldnir og ekki sé hægt að þvinga þá í þátttöku á leigu fyrir kvóta eða kaup á kvótum.

Það er nú svo að ef brotavilji er fyrir hendi af hálfu útgerðar í þessum efnum er mjög erfitt að koma í veg fyrir hann með einhverjum svona aðgerðum. Ég hef áður bent á það í umræðunni að kvótakerfið og framsal í kvótakerfinu býður þessu heim, að sjómönnum sé látið blæða, látnir taka þátt í kvótabraskinu. Stundum getur það komið upp, og hægt er að beita þá þeim þvingunum að ef þeir ekki geri það fái skipið ekki aflaheimildir og þá fá þeir ekki atvinnuna sína. Þegar þvingunaraðgerðir eru til þá er auðvitað hægt að beita þeim ef brotaviljinn er fyrir hendi.

Nú er ekki sanngjarnt að segja að allar útgerðir geri svona og bara fjarri því. Og það er fjarri mér að halda því fram að svo sé. Ég hef heyrt um margar útgerðir sem standa sig vel og enginn er að væna þær um að vera að beita þeim brögðum sem við nú erum að reyna að setja lög til að vernda gegn, sem betur fer. Við skulum vona að meginþorri útgerða í landinu sé með þeim hætti að ekki þurfi stöðugt að setja ný og ný lög um hvernig megi passa upp á að þær brjóti ekki lögin. Meginþorri útgerða er vafalaust þannig. En engu að síður eru tilvik, og við þekkjum mörg þau alvarlegu tilvik sem eru í umræðunni, en þau virðast hvorki hafa komið inn á borð Verðlagsstofu né lögreglu. Það segir okkur einungis að þetta kerfi er ekki virkt. Hér er veikluleg tilraun til að styrkja núverandi kerfi sem hefur sýnt sig að stendur sig engan veginn. Við skulum vona að það skili einhverju öðru en því að verða dýrara í rekstri. Þegar eru 20 millj. kr., það hefur verið upplýst hér, í rekstrarkostnað á þessu kerfi sem virðist ekki skilvirkara en þetta. En við skulum vona að það verði.

Frú forseti. Þetta kvótakerfi, framsal á kvóta sem við höfum búið við, er ranglátt og býður þessari hættu heim. Frumvarp þetta er viðleitni til að takast á við það innan þessara laga sem hér eru sett, en ég efast um að það virki með þeim hætti sem menn vonast eftir. Við styðjum þó þá viðleitni með fyrirvara um að við teljum kvótakerfið vera ranglátt og að það bjóði þessum hættum heim áfram. En við styðjum þá viðleitni sem hér er verið að leggja til, frú forseti.