133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

vextir og verðtrygging.

618. mál
[21:29]
Hlusta

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum, frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá viðskiptaráðuneyti.

Frumvarpinu er ætlað að bregðast við nýjum verðsöfnunartíma vísitölu neysluverðs vegna innleiðingar á reglugerð frá Evrópusambandinu en gerðin mælir fyrir um samræmt tímabil fyrir söfnun verðupplýsinga fyrir hina samræmdu neysluverðsvísitölu EES-svæðisins.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Birgir Ármannsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta Möller, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson.

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að geta um hugleiðingar í kringum þetta. Það sem er að gerast er að í mars 2008, þ.e. næsta ár, mun vísitalan ekki lengur miðast við verðupptöku 1. og 2. febrúar eins og verið hefur, heldur um miðjan janúar. Þetta þýðir að vísitalan frestast um 16 daga.

Þetta þýðir jafnframt að allar verðtryggðar skuldir og eignir landsmanna verða eilítið verðminni en skyldi fyrir bragðið. Það er mjög erfitt að átta sig á því hvernig þetta kemur út ef þetta yrði reiknað langt fram í tímann. En ef við göngum eingöngu frá þessum punkti í mars 2008 og þeirri spá sem nú er gert ráð fyrir, 3–4% verðbólgu, þá er þetta um það bil 1,5 prómill sem það skiptir máli, sem maður getur litið þannig á að allar verðtryggðar eignir og skuldir landsmanna rýrni. En að sjálfsögðu dreifist það yfir langan tíma. Og að hluta til líka húsnæðisverð.

Ég vildi bara að þessar athugasemdir kæmu fram. Þetta hefur mikið verið rætt og m.a. við lífeyrissjóði og aðra og þar á bæjum telja menn ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þetta.