133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[22:00]
Hlusta

Frsm. meiri hluta umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki á því hvað hv. þingmaður er að fara þegar hann talar um að ríkisstjórnin sé í grenjandi einhverju, ég náði ekki hvað það var. Það er aukaatriði. Og að halda því fram að það sé ábyrgðarlaust að vísa þessu á fyrirtækin, það er mjög sérkennilegt. Það hefði verið ábyrgðarlaust ef við hefðum vísað þessu á ríkissjóð. Það hefði verið ábyrgðarlaust. Algerlega ábyrgðarlaust. Það er alveg ljóst að samkvæmt þessu frumvarpi, verði það að lögum, er ábyrgðin fyrirtækjanna. Það er ekki á ábyrgð ríkisins að sjá til þess að þau hafi losunarheimildir um alla framtíð. Það er lykilatriði. Það er algerlega lykilatriði.

Ég trúi því ekki að hv. þingmaður sé fylgjandi því að ríkissjóður ætli að gangast í ábyrgðir. (Gripið fram í.) Það er það sem hv. þingmaður segir, að við séum að vísa þessu til fyrirtækja. Þá er þetta alveg rétt. Því ríkissjóður á ekki að bera ábyrgðina. (Gripið fram í.) Annaðhvort eru það fyrirtækin sem bera ábyrgð á losun sinni eða ríkissjóður. Það liggur fyrir að hér er farin sú leið að vísa þessu á fyrirtækin hreint og klárt. Þannig að þeim sé ljóst að þau verða að hafa heimildir fyrir sinni losun. Það er lykilatriði. Síðan getum við haft allar skoðanir á því hvort við ætlum að vera með mikla losun, litla, enga, hvort við ætlum að hafa eitt álver, ekkert álver, hvað þetta heitir allt saman. Aðalatriðið er þetta. Að fyrirtækjum sé ljóst, þau fyrirtæki sem ætla að starfa, að þau verði sjálf að sjá um losunarheimildir sínar. Það er lykilatriði.

Ef við berum okkur saman við önnur lönd, sem er mjög gott, og sérstaklega hvet ég menn til þess að skoða samanburð við Evrópusambandið, kemur margt athyglisvert í ljós í því samhengi.