133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:03]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og vant er á síðustu dögum þings koma til umræðu dagskrármál sem útheimta talsvert mikla efnislega yfirferð ef vel ætti að vera. Við skulum ekki gleyma því að þegar sett eru flókin lög á löggjafarsamkomunni er eðlilegt að umræður um mál séu teknar með í lögskýringum hvers konar. Hann er því afar þreytandi, sá plagsiður þessarar ríkisstjórnar, að koma með mikil umræðumál í kippum undir lok þinghalds sem í sjálfu sér skrúfar fyrir allar vitrænar umræður um málin. Annaðhvort ræða menn málin og flytja ræður fram á nótt, eins og nú er þegar klukkan er farin að ganga tólf. Þingheimur bíður þá óþreyjufullur eftir því að þinghaldi ljúki og menn eru því í blóðspreng við að ljúka afgreiðslunni á tíma sem er óboðlegur, sé efni frumvarpanna sem hér fara í gegn skoðað.

Málið sem hér um ræðir fékk allt of litla umfjöllun í umhverfisnefnd, fyrst og fremst vegna þess hversu seint það var fram komið. Málinu var ekki dreift fyrr en undir lok febrúar og ekki tekið inn í nefndina fyrr en í byrjun mars. Það gefur augaleið að á þeim fáu dögum sem liðnir eru frá því að nefndin tók málið til umfjöllunar hefur ekki verið mikill tími til að fjalla um það svo vel geti talist. Ég leyfi mér að fullyrða, frú forseti, að hér er um vanreifað mál að ræða sem útheimtir mun meiri umfjöllun en þetta mál hefur fengið og er það afar miður. Enda ekki um neitt smámál að ræða.

Sannleikurinn er sá að við okkur blasir gríðarlegt vandamál sem er kannski ekki þörf á að fara um mörgum orðum. Samt má geta þess að nýja skýrslan frá milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna IPCC sem kynnt var í síðasta mánuði staðfestir að yfirvofandi loftslagsbreytingar munu valda gríðarlegri hlýnun á heimsvísu eða á bilinu 1,1 gráðu til 6,4 gráðu hærri meðalhita á næstu 100 árum. Skýrslan sú staðfestir að þessar loftslagsbreytingar séu af manna völdum, sem úrtölumenn hafa reynt að halda fram að sé ekki, alveg fram á þennan dag. Þess er skemmst að minnast er hæstv. fyrrv. forsætisráðherra gat þess í ræðustóli Alþingis um árið að menn væru að mála skrattann á vegginn með því að hrella alþýðu manna með hrakspám um áhrif loftslagsbreytinga. Hæstv. fyrrv. forsætisráðherra Davíð Oddsson talaði um það í ræðum sínum að menn væru að mála skrattann á veginn og hafði á orði að skrattinn væri heldur leiðigjarnt veggskraut. Það eru aðeins örfá ár síðan þessi orð voru mælt úr ræðustól en nú er svo komið að menn fara ekki lengur í grafgötur um hver áhrifin eru eða hvert þau má rekja.

Í viðleitni sinni við að koma böndum á loftslagsbreytingarnar hafa þjóðir heims gert með sér samning, loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna og við hann Kyoto-bókunina, sem gerð er grein fyrir í málum sem tengjast þessu þingmáli, þ.e. í nefndaráliti minni hluta a.m.k., í frumvarpinu sjálfu og greinargerð með því.

Skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni og loftslagssamningnum eru þess eðlis að við skuldbindum okkur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þess vegna gagnrýnum við í stjórnarandstöðunni nýlega stefnumörkun í loftslagsmálum og frumvarpið sem við ræðum um hér. Þegar þessi tvö skjöl eru borin saman er gagnrýni okkar sú að markmiða í stefnumörkuninni um samdrátt sjái ekki stað í frumvarpi um losun gróðurhúsalofttegunda. Það er afar ámælisvert, frú forseti, þegar um jafnalvarleg mál er að ræða eins og þau sem hér er um fjallað, að ekki skuli vera samræmi á milli þess sem langtímastefnumörkunin felur í sér og þingmálsins sem á að spanna og ná utan um framkvæmdina á þessum málum. Í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er þess getið að íslensk stjórnvöld ætli sér að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar samkvæmt loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni, leita allra hagkvæmra leiða til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og jafnframt segja þau að markvisst eigi að stuðla að samdrætti í notkun jarðefnaeldsneytis, að í stað jarðefnaeldsneytis muni koma endurnýjanleg orka í auknum mæli, loftslagsvænt eldsneyti eða vistvænir orkugjafar. Sömuleiðis segir ríkisstjórnin að hún vilji stuðla að því að auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis og breyttri landnotkun.

Fjallað er um rannsóknir á nýsköpunarsviði loftslagsmála. Þessa þætti á að efla og styðja við útflutning á íslensku hugviti á sviði endurnýjanlegrar orku og tækni auk þess sem undirbúa á aðlögun að loftslagsbreytingum, jafnhliða því sem leitað verði leiða til að draga úr hraða þeirra og styrkleika. Svo kemur rúsínan í pylsuendanum: Meginmarkmið með stefnumótuninni er að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi um 50–75% frá árinu 1990, sem er viðmiðunarár loftslagssamningsins, til ársins 2050.

Hæstv. forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þetta markmið ríkisstjórnarinnar. Ég lít á það sem metnaðarfullt og mikilvægt en ég harma um leið að þess skuli ekki sjá stað í því frumvarpi sem við hér ræðum. Tvískinnungurinn í málflutningi ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálunum er hörmulegur, frú forseti. Ef við værum að ræða þessi mál undir eðlilegum kringumstæðum stæðu fréttamenn í röðum og biðu þess að hæstv. umhverfisráðherra skýrði þennan tvískinnung í stefnu ríkisstjórnarinnar og talaði tæpitungulaust um hvernig ríkisstjórnin getur lagt það til að fara 1,1 millj. tonna fram úr meðaltalslosuninni sem við fengum í undanþáguákvæðinu við Kyoto-bókunina þegar fyrsta bókunartímabilinu lýkur.

Í lok árs 2012 verðum við komin 1,1 millj. tonna fram úr þeim ramma sem Kyoto-bókunin setti okkur. Með öðrum orðum munu íslensk stjórnvöld, ef heldur fram sem horfir varðandi þessi stóriðjumál, þau verk sem nú eru í pípunum og ríkisstjórnin hefur laðað til landsins, sprengja alla ramma. Þessi ríkisstjórn og hæstv. umhverfisráðherra þarf að svara því hver er forsendan fyrir stefnumörkuninni til langs tíma þegar skammtímaáætlunin er jafnsubbuleg og raun ber vitni. Ef við værum að ræða þetta mál undir eðlilegum kringumstæðum stæðu fjölmiðlamenn í röðum og óskuðu þess að hæstv. umhverfisráðherra skýrði þessi mál. Þess vegna harma ég að hæstv. ríkisstjórn skuli stýra þessu máli inn í þennan farveg , að það skuli svo seint fram komið að það fái ekki tíma í umhverfisnefnd til eðlilegrar umfjöllunar og að það skuli síst af öllu gefinn tími til að ræða það í þingsölum þannig að málinu fylgi efnisleg umræða og skoðanaskipti fólks úr öllum flokkum.

Allt er þetta hið snautlegasta, hæstv. forseti. Meðferðin á málinu er hálfgrátleg og sama má segja um rök hæstv. umhverfisráðherra í þessum málum þegar hún hefur svarað gagnrýni okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem við höfum komið fram með vegna þessa tvískinnungs alls, þá er varnarræða hennar afar ósannfærandi.

Hæstv. ráðherra Jónína Bjartmars svaraði í þingræðu í febrúar, sennilega 11. febrúar síðastliðinn, þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hana um losunina sem gera má ráð fyrir að verði frá stóriðjunni á tímabilinu 2008–2012, að stóriðja á Íslandi væri ekki hluti af loftslagsvandanum, stóriðja á Íslandi væri hluti af lausninni vegna endurnýjanlegra orkugjafa okkar. Ég leyfi mér að segja úr þessum ræðustól, virðulegi forseti, heyr á endemi. Að umhverfisráðherra á Íslandi skuli leyfa sér að halda því fram að stóriðja á Íslandi geti verið hluti af lausninni á loftslagsvandanum.

Hæstv. ráðherra til upplýsingar þá er lausnin á þessum loftslagsvanda, eftir því sem færustu vísindamenn segja, samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda. Að sigla með súrál frá Jamaíku eða Ástralíu þvert yfir heimshöfin með ómældri losun á koltvísýringi upp til Íslands til að bræða það hér, og losa áfram af verksmiðjunum, jafnvel þótt lítil losun verði af raforkuframleiðslunni, er ekki lausnin á loftslagsvandanum. Þetta er hluti af vandamálinu. Við verðum þannig samábyrg með þeim sem menga mest, skussunum sem ekki ætla að taka á sig ábyrgð í loftslagsmálunum með því framferði sem við höfum sýnt og því ábyrgðarleysi sem ríkisstjórnin hefur sýnt í þessum efnum.

Þetta er ríkisstjórnin sem segir í öðru orðinu að stóriðjustefnan sé liðin undir lok, ekki sé lengur rekin stóriðjustefna á Íslandi. Auðvitað er þetta mál hið versta fyrir ríkisstjórnina og auðvitað er þetta málið sem á stóran hlut í því fylgistapi sem skoðanakannanir eru að sýna að hrjái Framsóknarflokkinn þessa dagana og það skyldi engan undra þegar menn leyfa sér að varpa fram sjónarmiðum sem eru jafnuppfull af hroka gagnvart vandamálinu og tvískinnungi gagnvart því hvernig á að takast á við það.

Virðulegi forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram á Alþingi þingmál sem hefur að geyma okkar helstu sjónarmið í þessum efnum og hvernig við sjáum skynsamlegast að takast á við þennan vanda. Því þingmáli var dreift á Alþingi einhvern tíma í október eða nóvember, held ég, a.m.k. fljótlega í byrjun þings. Þingmálið er að finna á þskj. 259 og er tillaga til þingsályktunar um loftslagsráð. Í því þingmáli álítum við að einfaldast sé og skynsamlegast fyrir okkur að setja á fót loftslagsráð sem hafi tiltekin verkefni með höndum, m.a. það að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á markvissan hátt og annarra þeirra efna sem geta haft skaðleg áhrif á andrúmsloft og loftslagsþróun. Loftslagsráð af þessu tagi þyrfti líka að hafa með höndum verkefni sem fæli það í sér að meta líkleg áhrif loftslagsbreytinga á þjóðarhag og þjóðaröryggi, því að þó að í stórum erlendum skýrslum sé hægt að fá talsvert miklar upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinganna, líkleg áhrif loftslagsbreytinganna á t.d. náttúru- og vistkerfi þá er þjóðunum í sjálfu sér uppálagt hverri og einni að meta þau áhrif sem hlýnunin og áhrif á vistkerfið geta síðan á endanum haft á samfélag, á þjóðarhag og þjóðaröryggi. Þetta þarf að skoða á landsvísu og við Íslendingar þurfum auðvitað að skoða þetta eins og aðrar þjóðir.

Loftslagsráð að mati okkar Vinstri grænna þyrfti líka að vera til ráðgjafar um rannsóknarþörf og viðbrögð á sviðum sem mestu varða m.a. um mannvirkjagerð, um skipulag byggðar, samgöngur, atvinnuhætti, þróun lífríkis. Það nægir að nefna núna gríðarleg áform um uppbyggingar á landfyllingum rétt vestan við okkur sem fræðimenn og fræðingar ýmiss konar hafa verið að vara við, bæði erlendir og innlendir. Það er eðlilegt að hið opinbera setji á laggirnar einhvers konar stofnun sem kanni þetta með hlutlægum hætti og leggi á þetta mat hvað sé skynsamlegt í þessum efnum, hvað sé eðlilegt að heimila eða hægt að fara í ef tekið er mið af þeim spám sem vísindamenn hafa komið fram með og hvað sé í rauninni ófæra í þessum efnum.

Loftslagsráð getur líka miðlað fræðslu og rækt alþjóðatengsl sem orðið geti viðfangsefni ráðsins til framdráttar og sömuleiðis er gert ráð fyrir því í tillögu okkar Vinstri grænna að loftslagsráð geti beint að eigin frumkvæði tilmælum til opinberra aðila og annarra eftir því sem tilefni þykir til. Þetta er þekkt módel þar sem við getum nefnt sem dæmi hvernig stjórnvöld hafa tekist á eða eru að reyna að takast á við jafnréttismálin þar sem komið er á einhverju ákveðnu opinberu batteríi þar sem jafnréttisfulltrúar mynda með sér tengingu sem á að skoða jafnréttismálin í opinbera kerfinu. Við getum nefnt Staðardagskrá 21 þar sem sveitarfélög hafa með sér ákveðið samstarf sem á að meta umhverfisáhrifin af framkvæmdum í sveitarfélögum og það hvernig sveitarfélög geta staðist þær kröfur sem gerðar eru til okkar varðandi sjálfbæra þróun. Loftslagsráð gæti samkvæmt hugmyndum okkar haft innan borðs fulltrúa þingflokkanna á Alþingi, fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, frá ráðuneytunum og opinberum stofnunum, frá samtökum á vinnumarkaði og frá umhverfisverndar- og neytendasamtökum og svo gerum við ráð fyrir að þetta loftslagsráð skili skýrslu um störf sín til Alþingis eigi sjaldnar en annað hvert ár. Við höfum með þessu máli okkar afar efnismikla greinargerð sem fjallar m.a. um brýnustu verkefni alþjóðasamfélagsins í þessum málum, m.a. hvernig draga þurfi úr heildarlosun og hvernig þáttur Íslands hingað til hefur þróast og losun gróðurhúsalofttegunda hérlendis, hversu lagasetningu hér hefur verið ábótavant og hversu sorglegur skortur hefur verið á afstöðu núverandi ríkisstjórnar til mótunar framtíðarstefnu í þessum efnum.

Ráðleysið sýnir sig ekki síst í því að í fyrra þegar við fengum til umfjöllunar frumvarp til laga um skráningu á losun gróðurhúsalofttegunda, frumvarp sem var gert að lögum á síðasta þingi en verður nú breytt með því að það er innifalið í þessu frumvarpi hér, þá fengum við einmitt frá Orkustofnun umsögn og því frumvarpi fylgdi meira að segja uppkast að öðru frumvarpi þar sem sameinað var í eitt áætlun um losunina, þ.e. með hvaða hætti ætti að skrá losunina og sömuleiðis svipuð ákvæði og er að finna í þessu frumvarpi, þannig að ein af stofnunum okkar opinbera kerfis var á síðasta ári búin að skila til umhverfisnefndar tillögu að frumvarpi sem hafði að geyma sömu og svipuð prinsipp og loksins er verið að leggja fram hér af ríkisstjórninni.

Farið var vel yfir það af hv. þm. Merði Árnasyni áðan þegar hann fór yfir nefndarálitið hvernig Náttúruverndarsamtökin og Landvernd hafa tjáð sig í þessum efnum. Það má líka nefna að Umhverfisstofnun hefur tjáð sig um þessi mál bæði í fyrra og eins núna. Ef ég glugga í það sem Umhverfisstofnun sagði um málið sem varðar skráningu gróðurhúsalofttegunda frá því í fyrra þá töldu starfsmenn Umhverfisstofnunar og forstjóri hennar afar mikilvægt að ráðist yrði í markvissa vinnu sem miði að því að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, tekur sem sagt undir þær kröfur sem í orði kveðnu eru settar fram í stefnumörkun til langs tíma. Umhverfisstofnun segir að það þurfi að setja lagalega bindandi losunarmörk ásamt því að útfæra reglurnar um losunarheimildirnar. Þetta var allt saman komið fram fyrir löngu síðan og stjórnvöld bregðast þess vegna afar slælega við og hægt að mínu mati þar sem hvatningin hefur verið til staðar frá öllum stofnunum í kerfinu, að ekki sé talað um umhverfisverndarsamtökunum sem hafa reynt að brýna hæstv. ríkisstjórn árum saman í þeim efnum ásamt okkur sem hér höfum farið fremst í flokki stjórnmálaflokka í þessum málaflokki, við Vinstri græn.

Það er ágætt að rifja upp, hæstv. forseti, að í norrænu samstarfi höfum við skuldbundið okkur og ráðherrar okkar hafa undirritað metnaðarfull markmið ekki hvað síst í umhverfismálunum og þar með loftslagsmálunum og það er ekki lengra síðan en í janúar sl. sem á fundi Norðurlandaráðs var haldið málþing sem fjallaði um norræna orkustefnu sem svar við hnattrænum áskorunum á sviði loftslagsmála þar sem farið var yfir það hvernig ríkari hluti heimsins, þar með talin Norðurlöndin, er valdur að mestum hluta gróðurhúsalofttegunda og fram kom á fundinum að ríku löndin, bæru ákveðnar skyldur í þessum efnum, Norðurlöndin ekki hvað síst. Okkur bæri að ganga á undan með góðu fordæmi og endapunkturinn var að minnka losun. Það er nauðsynlegt þar sem þekkingin er til staðar og þar sem fjármagnið er til staðar að tekið sé betur á heldur en raun ber vitni og á þessu málþingi voru norræn stjórnvöld áminnt um það að standa saman og sýna í verki pólitískan vilja og pólitíska getu til að minnka losunina. Þetta eru málin sem Norðurlandaráð segir að verði efst á baugi í Norðurlandaráðsþinginu í Ósló í lok október og á því þingi verður örugglega gerð grein fyrir þeim stefnumiðum sem norrænar ríkisstjórnir hafa sett sér. Ég geri ráð fyrir að þar verði skoðað á hvern hátt Norðurlöndin geta í sjálfu sér gengið á undan með samþættingu þessara mála, þ.e. hvernig Norðurlöndin geta á róttækan hátt farið fyrir ríkjum veraldarinnar með því að búa til marktæka stefnu fyrir lönd sín um hvernig megi draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Mér þykir miður, hæstv. forseti, að ekkert skuli benda til þess að ríkisstjórn Íslands geti verið í flokki með þessum framsæknu ríkisstjórnum sem Norðurlandaríkisstjórnirnar ætla sér að reyna að vera. Íslenska ríkisstjórnin getur ekki með hreinni samvisku gengið á undan eða farið í þennan flokk þeirra þjóða sem þykjast ætla að ganga á undan með góðu fordæmi þegar verið er að auka losun gróðurhúsalofttegunda á þeim nótum sem hér hefur verið gerð grein fyrir í nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar.

Hæstv. forseti. Ég sé svo sem ekki ástæðu til að lengja umræðuna mjög. Ég tek undir allt það sem hv. þm. Mörður Árnason sagði í framhaldi af því sem hann sagði þegar hann fylgdi úr hlaði nefndaráliti okkar. Mér finnst einungis erfitt að þessar aðstæður skuli vera með þeim hætti sem raun ber vitni. Mín tilfinning er alltaf í lok þings sú að stjórnarandstaðan, sem eðli máls samkvæmt og lýðræðið gerir ráð fyrir að sé eitthvert aðhald á ríkisstjórnina, hafi ekki þau tæki og þau tól í höndunum sem eru nauðsynleg til að veita ríkisstjórninni aðhald þegar hægt er að setja á okkur þá pressu sem raun ber vitni í lok þinghalds hvert einasta ár. Sjónarmið þau sem við setjum fram í umræðunum, eins og t.d. í þessari tilteknu umræðu um loftslagsbreytingarnar og frumvarp hæstv. umhverfisráðherra um losun gróðurhúsalofttegunda fær ekki þá athygli sem það verðskuldar, það fær ekki þá umræðu sem það verðskuldar og sjónarmið okkar verða auðvitað hunsuð við afgreiðslu þess. Það er ekki beint uppörvandi að ræða málið við þessar aðstæður en maður setur undir sig hausinn og lætur sig hafa það.

Við Íslendingar einblínum mjög á orkunotkun. Okkur hefur ekki lánast að setja upp metnaðarfull markmið um að spara orku. Mér dettur í hug af því að ég var að horfa á fréttir í kvöld þar sem kom fram að við værum í óða önn að reyna að setja upp háskóla, tvo frekar en einn á sviði orkurannsókna. Tveir orkuháskólar í bígerð á Íslandi, kom fram í sjónvarpsfréttum í kvöld. Það að við skulum beina athyglinni svo mjög að orkunni og orkuframleiðslu segir mér að við séum með nokkuð skakkan fókus í þessum efnum og ég er sannfærð um að við værum að ná miklu lengra í því að breyta hugarfari þjóðarinnar ef við einblíndum frekar á umhverfismálin og á sjálfbæra þróun. Ef við settum upp tvo háskóla, sem einbeittu sér að sjálfbærri þróun og rannsóknum á sjálfbærri þróun, mundi það skipta meira máli fyrir umhverfi veraldarinnar og fyrir upplýsingu og fyrir meðvitund þjóðarinnar frekar en að einblína einlægt á orkuna, orkuframleiðsluna og orkunotkunina því sannleikurinn er sá að leitun er að þeirri þjóð á byggðu bóli sem eyðir jafnmikilli orku og Íslendingar gera.

Athyglisvert var að lesa grein í Morgunblaðinu í lok febrúar þar sem fjallað var um þessi mál. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, fjallaði í viðtali við blaðið um það hvernig Íslendingar gætu lækkað raforkureikning landsins verulega með afar einföldum aðgerðum. Hann sagði að almenn raforkunotkun á Íslandi, að stóriðjunni undanskilinni, næmi 2.681 gígavattstund og hann taldi raunhæft að það mætti spara 15% af því án þess að það kæmi nokkuð niður á lífsgæðum eða framleiðslu. Meðalraforkunotkun heimila er um 4,5 megavattstundir á ári, sagði Sigurður Ingi Friðleifsson. Því gæti 15% sparnaður numið 6.000 kr. á heimili sem er kannski ekki há fjárhæð en á móti kemur að ástæðulaust er með öllu að eyða í óþarfasóun. Sigurður Ingi segir að þetta sjáist best á því þegar heildarnotkun okkar er skoðuð en þá komi í ljós að slíkur sparnaður sem hann er að leggja þarna til næmi sem svaraði 402 gígavattstundum, sem í peningum talið gæti numið um 3,2 milljörðum kr. Það munar um minna, virðulegi forseti, á þessum síðustu og verstu tímum. Ef dugur væri í ríkisstjórninni og ef hún meinti eitthvað með langtímaáætlunum í loftslagsmálunum og þeirri stefnumörkun sinni í loftslagsmálum, sem út kom í síðasta mánuði, þá hefði fylgt með þeirri stefnumörkun öflug tímasett áætlun um hvernig við ætluðum að draga úr orkusóun. Ljóst er að langtímamarkmið okkar er og þarf að vera að draga úr gróðurhúsalofttegundum um a.m.k. 50% fyrir miðja 21. öldina. Það er nauðsynlegt að setja bindandi losunarmörk og útfæra þær reglur sem hér er byrjað að vinna að á yfirgripsmeiri hátt en raun ber vitni og vitna ég þar kannski sérstaklega til þeirra reglna sem þarf að setja varðandi bindingu í gróðri en eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans er það enn óskoðað mál. Ekki er ólíklegt að skrifstofa loftslagssamningsins í Bonn setji fram um það mál ákveðnar hugmyndir eða réttara sagt framkvæmanlegar hugmyndir sem geti verið nýtilegar, en ég efast um að þau verkefni sem hægt væri að setja á legg hér af því tagi verði umfangsmikil. Mér finnst það ofurbjartsýni af þeim sem hafa verið að vinna fréttir af ljósvakamiðlunum upp á síðkastið og hafa verið að setja niður græna fótboltavelli vítt og breitt um Ísland, sem eiga að sýna hversu mikið sé hægt að binda eða þurfi að binda í gróðri til að vega upp á móti stóriðjunni. Ég minnist þess þegar ég hef sótt fundi og málþing á erlendum vettvangi um loftslagsmál hafa ævinlega verið varnaðarorð uppi varðandi bindinguna í gróðrinum og nauðsynlegt sé að fara þar með mikilli gát. Eftir því sem kom fram í upplýsingum frá umhverfisráðuneytinu í meðförum nefndarinnar á málinu er ljóst að flækjustig slíkrar vinnu er gríðarlega hátt. Slíkt er því enn að miklu leyti fugl í skógi og langt í land að útfærðar reglur líti dagsins ljós í þeim efnum en auðvitað er nauðsynlegt að unnið sé að slíku og á endanum náð lendingu í þeim efnum.

Það er skoðun mín að Ísland hafi haft tækifæri til að vera í hópi þeirra forustuþjóða sem ég nefndi áðan í þessum málum en því miður hefur stóriðjustefnan sett okkur stólinn fyrir dyrnar með það, því að á alþjóðavettvangi á þjóð, sem leyfir sér að gera það sem við erum að gera með því að fara út fyrir alla þá ramma sem við þó höfum skuldbundið okkur til að vera innan, ekki skilið góða einkunn í loftslagsmálunum. Núverandi ríkisstjórn fær í mínum huga falleinkunn. Um það vitna þau áform sem gerð er grein fyrir í fylgiskjölum og athugasemdum með frumvarpinu og við höfum gagnrýnt málefnalega í stjórnarandstöðunni í efnismiklu nefndaráliti sem hefur að geyma umsagnir málsmetandi aðila í þessum málaflokka sem styðja sjónarmið okkar.