133. löggjafarþing — 92. fundur,  16. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:53]
Hlusta

Frsm. minni hluta umhvn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég kannast ekki við að hæstv. umhverfisráðherra þurfi að taka tillit til sérstakra tilmæla um að tala stutt. Það hefur enginn skipað hæstv. umhverfisráðherra að tala stutt. Þvert á móti er það alger vanvirða við — þetta er sérkennileg uppákoma, forseti, að sjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur í háarifrildi við hæstv. umhverfisráðherra en ég stöðva í andsvari mínu, get ekki annað.

Á þeim stutta tíma sem ég á eftir vildi ég koma því að að það er gersamlega út í hött að kalla það skattlagningu sem við höfum lagt til, sérstaklega þegar sá sem það gerir hefur hugsað sér að gefa þann kvóta sem hér um ræðir án nokkurs gjalds en láta síðan næstu fyrirtæki sem koma þar á eftir borga þannig að þá er verið að skattleggja án jafnræðis. En það sem við erum þó að gera er það að við gætum fulls jafnræðis í þeirri gjaldheimtu sem við flytjum tillögu um að ráði orkumálastjóra sjálfs.

Ég vildi hins vegar spyrja beint um þetta: Merkilegt er að hæstv. umhverfisráðherra minntist á kolefnalaus rafskaut vegna þess að það er tækniþróun sem kynni að vera að skila árangri á næstunni. Gallinn við það er skortur á fjármagni álfyrirtækjanna. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan vilja álfyrirtækin ekki takast almennilega á við þetta verkefni vegna þess að þau fá enn þá afar ódýra raforku í löndum eins og Íslandi. Ég vil spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Hefur hún með einhverjum hætti hvatt til að þetta verði gert? Hefur hún staðið fyrir stjórnvaldsaðgerðum með einhverjum hætti til að það verði gert eða telur hún að frumvarpið stuðli með einhverjum hætti að því þar sem hún ætlast til að kvótinn verði frír sem hún afhendir flestum þeim fyrirtækjum sem nú starfa?