133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[00:05]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurningarnar voru tvær, önnur um greiðslurnar og það kemur í ljós í svari hæstv. ráðherra að þegar til lengri tíma er litið, þ.e. seinna, sé rétt að leggja gjald á þær. Ég spyr þá aftur: Hvers vegna ekki strax? Er ekki tækifærið einmitt núna? Verður það ekki miklu erfiðara seinna? Ég vil fá svar við því hvort hæstv. ráðherra geti ekki haft skilning á því sjónarmiði sem við höfum sett fram í minni hlutanum, að setja þurfi gjald á heimildirnar frá fyrsta degi.

Hver samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda verði eða séu í viðræðunum sem eru þegar hafnar, og ég þakka fyrir leiðréttingarnar frá hæstv. ráðherra, ég sakna þess að við fáum svör við því. Það hlýtur þá að vera búið að setja í hendur samningamanna okkar einhver markmið, einhverjar hugmyndir. Við skulum ekki gleyma því að í lok skuldbindingartímabils nr. 1, 31. desember 2012, verðum við, ef fram heldur sem horfir og áformin um álverin sem verið er að vinna að orkuöflun fyrir nái fram að ganga, þá verðum við að losa 1,1 millj. tonna umfram meðaltalstöluna sem gildir fyrir þetta fimm ára tímabil. (Gripið fram í.)

Síðan vil ég segja það, hæstv. forseti, í lok andsvarsins, að ef öll áform um stóriðjuuppbyggingu ná fram að ganga þýðir það hvorki meira né minna en við verðum búin að átjánfalda álframleiðslu okkar árið 2012 miðað við árið 1990 úr 90 þús. tonnum í 1,5 millj. tonna. Þar með verður Ísland mesta álframleiðsluland í heimi og ég spyr hæstv. umhverfisráðherra: Er hún stolt af þeirri framtíðarsýn sem álfyrirtækin eru að búa til fyrir Ísland?