133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[00:06]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi losunarkvótana og einhverja framtíðarsýn varðandi það, þá vil ég leggja áherslu á það sem fram kemur m.a. í fylgiskjali með nefndaráliti minni hluta umhverfisnefndar þar sem vísað er í Þorkel Helgason. Ég deili með honum þeirri framtíðarsýn þar sem hann bendir á að þar hefur kvótakerfið verið tekið upp að hluta. Hann bendir líka á í frumvarpi sem hann nefnir að hafi verið boðað hérlendis að þá séu fyrstu skrefin að slíku kerfi tekin.

Eins og ég sagði áðan í fyrra andsvari þá er verið að tala um heimildir sem álfyrirtækin þurfa umfram losunarheimildirnar sem þau fá og byggja á áætlun sem gerð er til fimm ára, að það eru fyrstu skrefin, menn borga fyrir það á markaðsverði. Þetta eru fyrstu skrefin sem m.a. Þorkell Helgason leggur til að við tökum en hann tekur það líka fram í ágætri ræðu sem fylgir með sem fylgiskjal að það þurfi allt að hafa sína þróun og það kunni að vera eðlilegt að fara hægt í setningu losunarkvóta. Ég tel okkur því vera að taka mjög markviss fyrstu skref í þessu samhengi.

Um samningsmarkmið Íslands að öðru leyti hef ég sagt það að frumvarpið er til að standa við þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto til að setja losunarheimildunum takmark. Frumvarpið felur ekki í sér nokkuð varðandi samningsmarkmið okkar, en það er ávísun á það hvað tekur við og að fyrirtæki skuli búast við frekari þrengingum sem segir nokkuð um það hverjar eða hvaða rekstrarforsendur eru fyrir ýtrustu áfomum um álver á Íslandi.