133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

opinber innkaup.

277. mál
[01:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (frh.):

Hæstv forseti. Góð vísa er aldrei of oft kveðin, segir einhvers staðar og fróðlegt að heyra þessa upprifjun á nefndaráliti með frumvarpinu sem er að mörgu leyti hin ágætasta smíð. Frumvarpshöfundum hafa engu að síður verið settar pólitískar skorður. Frumvarpið, eins og fram hefur komið, fjallar um opinber innkaup og hvaða reglur skuli gilda um þau þegar ríkið eða ríkisstofnanir eru annars vegar.

Þegar ég gerði hlé á ræðu minni við umræðuna í gær hafði ég farið nokkuð yfir gagnrýni mína á frumvarpið og ætla ég ekki að endurtaka það eða hafa um þetta langa ræðu nú. Ég áskil mér allan rétt að gera það við 3. umr. málsins en þó vil ég í örfáum orðum nefna þá þætti sem ég gagnrýni helst.

Í fyrsta lagi eiga reglurnar einvörðungu að gilda um ríkið og ríkisstofnanir en ekki um sveitarfélög og stofnanir sveitarfélaga. Þetta var reyndar gagnrýni sem fram kom í nefndinni og þó ég sé ekki áhugasamur um að knýja sveitarfélög í öllum tilvikum til að ráðast í útboð á verkefnum þá finnst mér hins vegar mikilvægt að þegar það á annað borð er gert, þá gildi um það skýrar og gagnsæjar reglur og út á það gengur frumvarpið. Það hefði því í sjálfu sér verið eðlilegt að eitt yrði yfir alla látið ganga.

Síðan má deila um það hvaða upphæðir eru lagðar til grundvallar. Hvenær ríkisstofnunum er gert að fara í útboð. Ég er þeirrar skoðunar að upphæðirnar sem hér eru lögbundnar séu einfaldlega of lágar. Talað er um að öll innkaup á vörum yfir 5 millj. kr. skuli fara í útboð og á verkum er talað um 10 millj. kr. grunnupphæð. Allt sem er á þeirri upphæð eða yfir skal fara í útboð.

Ég hefði talið að þessar upphæðir hefðu gjarnan mátt vera hærri og bendi á að viðmiðunarupphæðir fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu eru mun hærri, 14 millj. kr. fyrir yfirvöld á vegum ríkisins eins og það heitir og síðan upp í 22 millj. kr. Þetta er því eitt atriði sem ég gagnrýni.

Síðan hefði ég viljað setja í 1. gr. sem skýrir tilgang laganna skilgreiningu sem er víðari en sú sem hér er að finna. 1. gr. frumvarpsins hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.“

Á eftir orðunum „virkri samkeppni“ í 1. gr. vil ég bæta við, með leyfi forseta:

,,efla umhverfisvernd og félagslegar og siðrænar áherslur við opinber innkaup með sjálfbæra þróun í huga.“

Þetta er breytingartillaga sem ég flyt við frumvarpið og er í þeim anda sem verkalýðshreyfingin í Evrópu, samtök neytenda og samtök fatlaðra leggja áherslu á að sett verði í regluverk af þessu tagi. Við teljum að samþætta eigi umhverfisþáttinn í löggjöf af þessu tagi svo og hinar félagslegu áherslur. Í frumvarpinu er vissulega heimildarákvæði þar að lútandi. Ríkisstofnunum er heimilt að taka tillit til slíkra þátta. Ég ætla ekki að orðlengja þetta mjög og ekki að rekja einstakar greinar hvað þetta snertir en það er heimilt að setja slíkar kröfur eða fyrirvara eða hvað það á að kalla í útboðsgögn, en ég tel að þetta eigi að vera skylt. Það eigi að vera skylda að taka tillit til kjarasamninga og síðan margvíslegra félagslegra þátta.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég hef áður gert grein fyrir breytingartillögunni við frumvarpið sem við leggjum fram og ég áskil mér allan rétt til þess að skýra sjónarmið mín betur við 3. umr. málsins.