133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[01:50]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Í athugasemdum sem fylgdu þessu frumvarpi segir:

„Helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér eru að skýrar er kveðið á um stjórnsýsluhluta laganna. Í núgildandi lögum þykir skorta ítarlegri ákvæði um réttindi og skyldur leyfishafa sem og leyfisveitanda. Með frumvarpinu er stefnt að því að eyða allri hugsanlegri óvissu um réttindi og skyldur aðila. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á eignarrétti kolvetnisauðlinda sem áfram eru, og munu vera, í eigu íslenska ríkisins, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1990, um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins. Samkvæmt lögum nr. 13/2001 er iðnaðarráðherra, í samræmi við eignarrétt íslenska ríkisins, leyfisveitandi vegna leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis. Hins vegar er lagt til að heimilt verði að semja um að handhafi vinnsluleyfis verði eigandi þess kolvetnis sem hann framleiðir.“

Þessi tillaga er í 2. gr. frumvarpsins og það sem í henni felst virðist vera aðalástæðan fyrir því að frumvarpið er flutt. Með þeirri aðferð sem þarna er lögð til breytist sú ótvíræða þjóðareign sem er á kolvetni í séreign við vinnsluna og eigandinn, íslenska þjóðin, tekur í raun alla áhættu af mismunandi rekstri þeirra fyrirtækja sem vinna kolvetni. Þessi aðferð þarfnast gaumgæfilegrar athugunar. Fulltrúar Samfylkingarinnar gerðu tilraunir til þess í nefndarstarfinu að kalla fram upplýsingar um hvernig gjaldtakan yrði í raun ákveðin og settu fram þá skoðun að samræmis yrði að gæta á milli þessa frumvarps og frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem einnig er til meðferðar í nefndinni, þ.e. 542. mál. Um þetta voru skiptar skoðanir og fulltrúar stjórnarflokkanna töldu ekki ástæðu til að samræma meðferð þessara auðlinda. Samfylkingin telur að við meðferð auðlinda í þjóðareign eigi að gilda leiðsögn auðlindanefndar frá árinu 2000 en á þeirri leiðsögn byggði sú nefnd sem samdi fyrrnefnt mál nr. 542. Vandséð er að sú leið sem er opnuð með 2. gr. frumvarpsins með samningum um skattgreiðslur samræmist stefnumörkun auðlindanefndar frá árinu 2000. Til þess að endanlega sé hægt að kveða upp úr með það þyrftu að liggja fyrir útfærðar tillögur um þessa aðferð. Slíku var ekki til að dreifa. Gjaldtaka vegna væntanlegrar nýtingar er á forræði fjármálaráðuneytisins. Á vegum þess er nú vinnuhópur að skoða leiðir til gjaldtöku. Það er ekki hægt að bera saman þau úrræði í þessu efni sem fram koma í 542. máli við reglur sem ekki hafa verið settar.

Þá eru í 5. gr. frumvarpsins allt of víðtækar heimildir til Orkustofnunar til að úthluta svæðum til rannsókna og vinnslu kolvetna án auglýsinga. Gríðarleg verðmæti geta legið í auðlindum á og undir hafsbotni. Rétturinn til að rannsaka þau og nýta getur verið afar mikils virði. Alþingi verður því að gæta mikillar varúðar við framsal valds til ráðstöfunar slíkra verðmæta.

Annar minni hluti leggur til að frumvarpinu verði vísað frá.

Undir þetta rita hv. þingmenn Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson og Katrín Júlíusdóttir.