133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[02:06]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér var víða komið við í ræðu hv. þingmanns. Ég held að það liggi nokkuð ljóst fyrir að jarðfræðingar spá því að í raun sé það aðeins tímaspursmál hvenær við munum finna olíu innan íslenskrar efnahagslögsögu. Að sjálfsögðu gengur frumvarpið sem við erum að fjalla um út á það að vera búin að skapa ákveðna umgjörð utan um olíuumhverfið þegar að því kemur að við munum ramba niður á olíu eða gas innan íslenskrar efnahagslögsögu.

Þess vegna er ástæða til að afgreiða einmitt þennan ramma þannig að þeir sem fara í þennan mikla áhættubransa viti að hverju þeir ganga og út á það gengur frumvarpið.

Steinar Guðlaugsson, starfsmaður Orkustofnunar, sem kom til nefndarinnar eins og hv. þingmaður man, er líklega sá Íslendingur sem er fróðastur um þá möguleika sem við eigum á þessu sviði. Ég freistast til þess að trúa orðum hans, enda er hann Grindvíkingur og sannur heiðursmaður og góður vísindamaður. Í máli hans kom m.a. fram að sú leið sem er verið að fara með frumvarpinu er mjög sambærileg við þá leið sem farin hefur verið á Norðurlöndum.

Hins vegar hefði ég viljað spyrja hv. þingmann af því mér fannst hann taka nokkuð jákvætt í þessa möguleika á olíu- eða gasvinnslu í íslenskri efnahagslögsögu, en við vitum að þeirri vinnslu fylgir afskaplega mikill útblástur koltvísýrings og annað þar fram eftir götunum. Ég spyr því: Fer það ekki svolítið á skjön við almenna stefnu Vinstri grænna í umhverfismálum?