133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[02:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg til að ræða langt inn í nóttina við hv. þingmann um þetta ef út í það er farið, hvort við Íslendingar eigum að taka þann pól í hæðina að við viljum láta liggja óhreyfðar í jörðu eða í hafsbotni þær auðlindir sem kunna að vera hér af kolvetnisefnum og í tengslum við þá umræðu um útblástur og gróðurhúsalofttegundir.

Nú er það væntanlega þannig að olía og gas verður áfram nýtt í einhverjum mæli. Það er líka spurning um hvaða viðmiðunarreglur menn setja um það. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður þekkir umræðuna frá Noregi þar sem hörð átök hafa staðið t.d. um hvort leyfa eigi þar byggingu frekari gasvinnslustöðva öðruvísi en að þær séu útbúnar hreinsun frá byrjun. Sú tækni er ekki almennilega komin í gagnið en er væntanleg og þá er sá möguleiki vel hugsanlegur að menn geti stundað þessa vinnslu án beinnar losunar í vinnsluferlinu sjálfu.

Vissulega er eftir sú staðreynd að þegar síðan til notkunar á eldsneytinu kemur, þá losna gróðurhúsalofttegundir. En það fylgir allri notkun á jarðefnaeldsneyti. Spurningin hvort uppruni þeirra er héðan frá Íslandi eða einhvers staðar annars staðar er sjálfstætt mál í sjálfu sér og yrði væntanlega innan einhverra samninga og takmarkana sem við Íslendingar yrðum þarna aðilar að. Við höfum því enga afstöðu tekið til þess að ekki megi halda áfram rannsóknum á þessum möguleika af einhverjum slíkum ástæðum.

En ég get alveg lofað hv. þingmanni því að við munum sjá til þess eftir því sem okkar afl frekar leyfir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að að því marki sem menn kunna að athafna sig á þessum sviðum verði það gert á þann hátt sem ýtrast samræmist ströngustu umhverfiskröfum á hverjum tíma.

Auðvitað koma líka upp spurningarnar um möguleg óhöpp og slys á hafsvæðum sem kunna að vera verðmæt vegna fiskveiðimöguleika. Sú deila er líka vel þekkt frá Noregi, svo við nefnum það nú einnig í þessu samhengi.