133. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2007.

opinber stuðningur við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.

280. mál
[02:11]
Hlusta

Frsm. iðnn. (Hjálmar Árnason) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun. Um nefndarálit þetta vísa ég til þingskjals 1119. Nefndin fékk til sín fjölmarga gesti eins og rakið er á umræddu þingskjali.

Í frumvarpi þessu er lagt til að þrjár stofnanir verði sameinaðar í eina, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, og er þeirri miðstöð ætlað að taka við hlutverki Byggðastofnunar, Iðntæknistofnunar og Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og leggja höfuðáherslu á nýsköpun og atvinnuþróun á Íslandi. Í þingskjali þessu er fjallað um hvert hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar er ætlað.

Eftir að nefndin hafði farið vel yfir þetta mál og fengið til sín fjölmarga gesti og skriflegar umsagnir, eins og rakið er í þingskjali 1119, var það niðurstaða nefndarinnar að leggja til breytingar á frumvarpinu. Breytingarnar eru einkum fólgnar í því að í stað þess að leggja til að þrjár stofnanir verði sameinaðar, þ.e. Byggðastofnun, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun, leggur nefndin til að það verði Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Iðntæknistofnun, þær tvær stofnanir sem vinna hlið við hlið á Keldnaholti, verði sameinaðar en Byggðastofnun verði haldið utan við þessa sameiningu. Fyrir því eru raktar ástæður sem um er getið og raktar á þingskjali 1119.

Jafnframt minnir nefndin á að hlutverk Byggðastofnunar er mikilvægt og nauðsynlegt er að taka starfsemi hennar til gaumgæfilegrar athugunar og ekki síst með það í huga að efla starfsemi Byggðastofnunar.

Þetta var sameiginleg niðurstaða hv. iðnaðarnefndar og undir þetta rita, auk þess sem hér stendur, Sigríður A. Þórðardóttir og aðrir hv. þingmenn Kjartan Ólafsson, Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson, Katrín Júlíusdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, sem að vísu hefur fyrirvara, Gunnar Örlygsson og Kristinn H. Gunnarsson, sem einnig hefur fyrirvara. Steingrímur Jóhann Sigfússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og ritar undir þetta álit, en þó einnig með fyrirvara.