133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[09:36]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Ingólfur Guðnason, fyrrverandi sparisjóðsstjóri og alþingismaður, andaðist miðvikudaginn 14. mars. Hann var áttatíu og eins árs að aldri.

Ingólfur Albert Guðnason var fæddur 27. febrúar 1926 í Vatnadal í Suðureyrarhreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Guðni Albert Guðnason, bóndi í Vatnadal, og Kristín Jósepsdóttir húsmóðir.

Ingólfur Guðnason lauk prófi frá Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði árið 1945 og brottfararprófi frá Samvinnuskólanum 1947. Árið 1956 sótti hann þriggja mánaða námskeið í Bandaríkjunum í meðferð og viðhaldi landbúnaðarvéla.

Að loknu námi í Samvinnuskólanum var Ingólfur starfsmaður Kaupfélags Vestur-Húnvetninga á Hvammstanga til 1949. Á árunum 1950–1959 vann hann við og rak lengst af bifreiðaverkstæði á Laugarbakka í Miðfirði. Hann var sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Vestur-Húnavatnssýslu 1959–1995.

Ingólfur Guðnason var hreppstjóri Hvammstangahrepps 1960–1995, í hreppsnefnd Hvammstangahrepps 1966–1970 og formaður skólanefndar Reykjaskóla frá 1971. Í alþingiskosningunum 1979 var hann í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra og var einn þriggja þingmanna flokksins í kjördæminu til 1983, sat á fjórum þingum. Hann sat fundi Evrópuráðsins á vegum Alþingis 1980–1983.

Ingólfur Guðnason naut hylli og trausts heima í héraði eins og ráða má af þeim störfum sem honum voru falin þar. Hann var starfsamur og íhugull og lagði gott til mála á Alþingi sem annars staðar.

Ég bið þingheim að minnast Ingólfs Guðnasonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]