133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[09:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Loftslagsmálin eru í brennidepli stjórnmálanna úti um allan heim. Áhrifin af hlýnun lofthjúps jarðar blasa við og menn líta á þau sem mikið alvörumál. Þess vegna þykir okkur mjög miður að mál af þessu tagi sem við hér greiðum atkvæði um skuli koma á dagskrá í skjóli nætur í lok þings þegar ekki er tími til að fara í þær umræður sem málið verðskuldar og ég hefði haldið að allir flokkar hefðu áhuga á að taka.

Þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna ganga út á það að við drögum umtalsvert saman í losun gróðurhúsalofttegunda eins og allar aðrar þjóðir sem skuldbundu sig samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Í loftslagsstefnu stjórnvalda eru sett upp töluleg markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á þessari öld. Þeirra markmiða sér þó ekki stað í því máli sem við hér afgreiðum. Það er afar miður en það helgast auðvitað af stóriðjustefnunni sem hefur lifað og dafnað í skjóli þessara stjórnvalda frá 1995 þegar Ísland var markaðssett á alþjóðamarkaði sem gósenland fyrir stórfyrirtæki sem vildu kaupa ódýra orku.

Ef öll þau áform ganga eftir sem nú eru í pípunum, meira eða minna með stuðningi stjórnvalda, hefur álframleiðsla á Íslandi við lok skuldbindingartímabils 1 í Kyoto-bókuninni sautjánfaldast, úr 90 þús. tonnum árið 1990 í 1,5 millj. tonna árið 2012.

Þetta er ekki metnaðarfullt markmið. Málið sem við hér afgreiðum ber þess vitni. Það er mjög miður að ekki skyldi vera hægt að takast á um málið í þingsal meðan dagsbirtu naut, heldur tala hér inn í nóttina í þessu máli.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að metnaðarfull markmið séu sett í loftslagsmálum. Við komum til með að sitja hjá við afgreiðslu þessarar aumu stefnu ríkisstjórnarinnar.