133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[09:51]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Tveir hæstv. ráðherrar, Geir Haarde og Jónína Bjartmarz, kynntu á dögunum loftslagsstefnu til framtíðar, stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Hún er þannig að árið 2050, þegar við erum öll dauð sem hér sitjum, á að vera búið að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50–75% frá 1990. Mönnum þykir þetta mikið en í raun og veru er þetta lítið miðað við það sem viðgengst í Evrópu á þessum tíma.

Upphafið að þessu mikla framlagi Íslands til loftslagsmála á að vera það að fram til ársins 2012, á fyrsta Kyoto-tímabilinu, á að auka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Það er hið háleita markmið Geirs Haardes og Jónínu Bjartmarz og þeirra ríkisstjórnar sem hér situr, hæstv. veri hún og hv. þeir þingmenn sem henni fylgja.

Í þessu frumvarpi er vissulega stigið merkilegt skref í loftslagsmálum vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem úthlutað er loftslagskvótum. En hvernig er þeim úthlutað? Þeim er úthlutað þannig að ekki er tekið gjald fyrir þá og í umsögn orkumálastjóra þýðir það að verið er að búa til kerfi eins og í fiskveiðunum. Hættan er sú að það myndist eignakvóti á loftslagsheimildum hér. Það er farið á svig við Marrakech-ákvæðið, við undanþáguákvæðið sem stundum er kallað íslenskt, okkur þá til háðungar, með því að það á að losa miklu meira á síðara árinu, 2012, en á fyrri árunum sem þýðir að árið 2013 erum við komin jafnvel næstum því helming, a.m.k. þriðjung, fram yfir þá losun sem okkur er heimilt samkvæmt þeim samningum sem við höfum gert.

Við höfum flutt um þetta þrjár breytingartillögur og af þeim ástæðum að þingið lét sér sæma að þessi merkilegu framtíðarmál og þessar skrýtnu fyrirætlanir voru rædd hér um miðnæturbil í gærkvöldi munum við kalla þessar breytingartillögur til 3. umr. þannig að þingheimur geti allur tekið þátt í því að fjalla um þessi framtíðarmál íslensku þjóðarinnar og mannkynsins alls.