133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:12]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég er hlynntur þessu máli og hef verið um árabil. Ég hef talað fyrir því í þinginu nokkur ár að skoða beri hvort sameina eigi háskóla í eigu hins opinbera ef það eru efnisleg rök fyrir því. Hv. nefndarformaður nefndi áðan að þetta mál væri ekki síst til þess gert að styrkja og efla kennaramenntun í landinu. Undir það tek ég heils hugar.

Við þurfum að breyta og efla kennaramenntun í landinu með það að markmiði að kennarar fái aðgang að enn þá betri menntun og starf þeirra verði með þeim hætti á eftir að það leiði til hærri launa. Aukin menntun kennara þýðir hærri laun.

Við þekkjum það frá Finnlandi að þegar þeir fóru þá leið fyrir nokkrum áratugum, þegar þeir brugðust við hruni Sovétríkjanna og þeim efnahagslegu afleiðingum sem þeir stóðu frammi fyrir, þá fóru þeir í miklar fjárfestingar á öllum skólastigum í sínu landi og lögðu lykiláherslu á að lengja og efla kennaramenntun þannig að flestir kennarar væru með masterspróf. Þetta leiddi að sjálfsögðu til aukinnar menntunar kennara og þeir urðu betur launaðir en áður, mun betur launaðir en víðast þekkist annars staðar.

Við þekkjum að kjaradeilur við kennara og laun þeirra hafa leitt til þess að stéttin er undirlaunuð og hefur verið það um árabil. Það hefur jafnframt afdrifaríkar afleiðingar á skólakerfið. Það hefur leitt til þess að skólakerfið er ekki eins öflugt og það væri ef kennarar væru ánægðir og sáttir við kjör sín og hefðu sanngjörn laun. Þeir eru undirlaunaðir vil ég fullyrða. Kennaranám er að mínu mati of stutt. Ég tel að við eigum að lengja það þannig að úr verði fjögurra ára nám með masterspróf o.s.frv. Telur hv. formaður nefndarinnar, af því að hann talaði um að þetta ætti að efla og styrkja kennaramenntun, að í náinni framtíð verði þetta til þess að kennaramenntun standi lengur og þær breytingar komi fram í menntun kennara?