133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:35]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um frumvarp til laga um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sem hér liggur fyrir, um að kannað sé hvort hagkvæmt sé að það skuli vera sett í eitt ferli.

Í fyrsta lagi vil ég fagna þeirri tillögu í 3. gr. þar sem segir að við gildistöku laga þessara flytjast störf ótímabundið ráðinna kennara, sem uppfylla skilyrði 18. gr. laga um háskóla og annarra ótímabundið ráðinna starfsmanna Kennaraháskóla Íslands, yfir til hins sameinaða háskóla, Háskóla Íslands, sjálfkrafa.

Þetta finnst mér gott af því að það stríðir gegn því sem við höfum fyrr verið að takast á um við sameiningu stofnana. Ég minnist þess þegar verið var að breyta um hluta af nafni Hólaskóla af hálfu landbúnaðarráðuneytisins, að þá var kveðið á um að öllum starfsmönnum yrði sagt upp og þetta væri svo mikið ný stofnun. Þetta er því miklu skynsamlegra hjá menntamálaráðherra en t.d. landbúnaðarráðherra var með í sínum stofnunum. Mér finnst því þetta ákvæði gott og eðlilegt og sjálfsagt þegar í svona aðgerð er farið, hvort sem hún verður síðan endanlega farin eða ekki.

Þau atriði sem ég vil hins vegar nefna er að ég er ekki viss um að það sé kennaramenntun eða starfsemi Kennaraháskóla Íslands farsælt að vera að sækjast eftir sameiningu við Háskóla Íslands eða verða stærri eining. Fólk verður að muna það að styrkur skóla á Íslandi er oft og tíðum smæðin, hvað þeir eru smáir. Þeir er viðbragðsfljótir. Smæðin felur í sér styrk viðbragðsflýtis. Smæðin felur líka í sér það að hver einstaklingur fær meira svigrúm, meiri hvatningu til að takast á við hlutina. Í alþjóðlegu samhengi eru allir skólar á Íslandi smáir. Þegar menn eru að tala um einhverja stóra skóla á Íslandi, þá er það ekki svo. Í alþjóðlegu samhengi eru þeir smáir. Það er smæðin, viðbragðsflýtirinn og styrkur einstaklingsins sem er einmitt styrkur þessara skóla.

Ég hef ítrekað sem skólastjóri við Hólaskóla, sem er einmitt kominn með viðurkennda háskólagráðu, sem er ánægjulegt, orðið að berjast við þessi þröngsýnissjónarmið að nauðsynlegt sé að sameina allt í einhverja stóra einingu. Það sé forsenda fyrir því að eitthvað þróist áfram o.s.frv. Ég get bara sagt hér, frú forseti, að ef okkur á Hólum hefði ekki tekist að verjast þessari áráttu, þessari klisju um að sameining sé nauðsynleg eru miklar líkur á að Hólaskóli væri ekki til. Sömu rök voru t.d. um Háskólann á Akureyri. Ég minnist þeirrar umræðu þegar verið var að stofna Háskólann á Akureyri að þá var talið útilokað að hann gæti verið sjálfstæður og að hann yrði að vera hluti af Háskóla Íslands. Ég minnist mjög harðrar umræðu um málið. Ég held að flestir þeir sem vilja veg Háskólans á Akureyri sem bestan, að engum þeirra mundi detta í hug að nauðsynlegt væri fyrir hann að sameinast Háskóla Íslands, heldur væri styrkur hans fólginn í því að vera sjálfstæður skóli, njóta þeirrar hvatningar og styrks sem felst í því að þurfa að berjast á eigin forsendum.

Ég veit ekki annað en að Kennaraháskólanum hafi gengið vel, starfið er metnaðarfullt og allt þar hefur gengið mjög vel. Það er góður rekstur á starfi skólans o.s.frv. Ég sé því engar, enda eru ekki tilgreindar neinar eiginlegar ástæður fyrir því að nauðsynlegt sé að sameina þessa skóla. (Gripið fram í: Það eru allir sammála þessu.) Já, það eru allir sammála. Ég þekki þennan farveg. Þegar ég var að verja sjálfstæði Hólaskóla voru allir sammála um hann nema nánast við heimamenn. Ég þekki alveg svona röksemdafærslu. (SKK: Það eru allir sammála þessu nema þú.) Ég er ekki að lýsa mig ósammála þessu. Ég segi bara að þessi röksemdafærsla er ekki alltaf rétt. (Gripið fram í.) Ég kem hér upp vegna þess að þessari röksemdafærslu er stöðugt beitt á minni skóla úti á landi, hvort sem það er háskóli á Hólum, háskóli á Bifröst, háskóli á Hvanneyri, háskóli á Akureyri, stofnun háskóla á Vestfjörðum á Ísafirði, að þeir séu of litlar einingar til að mynda háskóla.

Háskóli byggist á fólki og þeim nemendum sem þar eru á hverjum tíma og styrkur þeirra er oft smæðin og viðbragðsflýtirinn. Þetta er einmitt atriði sem Jón Torfi Jónasson bendir á í greinargerð sinni um málið. Ég ætla ekki að fara að leggja stein í götu málsins um að Kennaraháskóli Íslands og Háskóli Íslands fái að sameinast, en ég vara við því að fólk beri allt of miklar væntingar til þess að allt breytist til batnaðar.

Vandinn hefur verið fjársvelti þessara stofnana. Vandinn hefur verið það á undanförnum árum í tíð núverandi ríkisstjórnar hefur menntakerfið verið fjársvelt. Þróunarmöguleikar hafa verið sveltir, takmarkaðir. Það hefur leitt til þess að ýmsar stofnanir hafa leitað annarra ráða og haldið að það geti hjálpað þeim út úr vandræðunum. Við höfum fengið hvert einkavæðingarfrumvarpið á fætur öðru. Hugmyndir ráðherra um að einkavæða skólakerfið og að í gegnum það fái það fjármagn, sem er líka jafnfráleitt.

Ég vil því ljúka þessum orðum mínum, frú forseti, á að segja fólki sem heldur að sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands leysi eitthvað eða sé eitthvert bjargræði til framtíðar, þá vil ég vara við miklum væntingum í því. Styrkur svona skóla er að eiga sinn eigin styrk og það er hann sem á að standa vörð um og engin sameining kemur í staðinn fyrir þann styrk sem við ræktum innan hverrar stofnunar.