133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

námsgögn.

511. mál
[11:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að varðandi þetta mál og reyndar ýmis fleiri hefur samstaða og samvinna í menntamálanefnd verið mjög til fyrirmyndar. Flestum stundum hafa verið viðhöfð þau vinnubrögð að leitað hefur verið sátta og reynt að gera mál sem best úr garði og þá er ekki nein hræðsla við að gera breytingar eða vekja athygli á að eitthvað megi betur fara þótt ekki hafi allt verið fullkomið sem til nefndarinnar kom.

Það eru auðvitað eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð að skila málum þannig að þau verða betri en þegar þau voru fyrst framlögð. En þetta er eitt af þeim málum einmitt sem algjör samstaða náðist um í nefndinni og ég mun því ekki halda hér langa ræðu en tel rétt að undirstrika aðeins nokkur atriði.

Það hefur verið þrýstingur á að Námsgagnastofnun héldi ekki alveg jafnsterkri stöðu gagnvart útgáfu námsgagna í grunnskólum og verið hefur. Þess vegna er gert ráð fyrir ákveðnu millistigi og það virðist hafa tekist nokkuð víðtæk sátt um að eðlilegt sé að stíga slíkt skref. Í því felst að Námsgagnastofnun starfi áfram með svipuðu fyrirkomulagi og nú er en alger aðskilnaður sé hafður á námsgögnum sem fari á hinn almenna markað, bæði fjárhagslegur aðskilnaður og tryggt sé að námsgögn séu seld á eðlilegu verði miðað við kostnað og annað þess háttar. Þetta verður náttúrlega vandmeðfarið og eðlilegt að fylgst verði með þessu til að sjá hvernig þetta þróast. Aðilar sem koma að þessu máli hafa sætt sig við þetta fyrirkomulag og telja eðlilegt að breyta fyrirkomulaginu í þessa átt. En það verður auðvitað að fylgjast vel með þannig að engin mistök verði gerð.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur námsgagnasjóður sem snýr eingöngu að grunnskólunum og er ætlaður grunnskólum til að kaupa námsgögn. Þetta er sá háttur sem ég hef nokkrar efasemdir um vegna þess að þarna er verið að útbúa hliðarkerfi við hið hefðbundna kerfi sem er viðhaft varðandi dreifingu fjármagns til sveitarfélaga vegna grunnskólarekstursins. Það er stór hluti af jöfnunarsjóði sem fer til sveitarfélaganna af ýmsum ástæðum, vegna grunnskólans. Þarna eru hins vegar námsgögnin tekin alveg sérstaklega út úr og sett í sérstakan sjóð. Eins og segir í sameiginlegu nefndaráliti okkar þá ræddum við hvort eðlilegt væri að gera þetta eða hvort ekki væri í raun og veru hægt að láta þessa fjármuni bara inn í stóra pottinn og þeim væri þannig dreift til sveitarfélaganna. Þá tækju sveitarfélögin í raun og veru ákvörðun um með hvaða hætti þetta yrði.

Í dag er það misjafnt eftir sveitarfélögum hvernig þetta er, sum sveitarfélög hafa gengið það langt að þau láta skólann í raun og veru hafa frelsi, þá er bara áætlaður ákveðinn kostnaður á skólahaldið og síðan er það skólinn sem tekur ákvörðun um hvernig því fjármagni er skipt á milli liða. Önnur sveitarfélög ganga mun lengra og eyrnamerkja fjármunina í ákveðna þætti. Ef þetta væri inni í stóra pakkanum þá gætu þau auðvitað haldið því áfram. En með þessu er sem sagt séreyrnamerkt fjármagn til námsgagnanna. En sveitarfélögin blessuðu þetta sem sagt og þá er þetta þar af leiðandi á þeirra ábyrgð og því eðlilegt að þau hafi þá ákvörðunartöku og þess vegna höfum við skrifað undir það og við treystum því að þau leysi þetta mál með sóma.

Eins og ég sagði áðan lít ég svo á að þetta sé ákveðið millistig. Við munum væntanlega eftir nokkur ár fá þessi mál aftur hér inn og þá verður komin reynsla á þetta fyrirkomulag og þá verður trúlega hægt að móta þetta, eigum við að segja, betur til framtíðar. Því það er auðvitað erfitt að sjá fyrir alla hluti sem upp geta komið.

Í þriðja lagi felst í þessu frumvarpi að komið verði á fót svokölluðum þróunarsjóði námsgagna og er hlutverk hans að styðja við nýsköpun, þróun, gerð og útgáfu námsefnis á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.

Þannig háttar til að það hefur verið slíkur sjóður fyrir framhaldsskólann vegna námsefnisgerðar en nú er þessu steypt í einn sjóð og hin skólastigin tekin saman. Það verður auðvitað að geta þess að það er aukið fjármagn í þetta sem vonandi verður til þess að ekki verði skerðing á því sem fer til framhaldsskólans því það er full þörf á því að það fjármagn sé frekar aukið en minnkað því eins og við vitum er fjöldi námsgreina í framhaldsskólunum kenndar í afar fámennum áföngum. Það á sérstaklega við í sumu iðn- og verknámi þar sem sumar greinarnar eru jafnvel ekki einu sinni kenndar á hverju ári og liggur ljóst fyrir að það verður mjög seint sem markaðurinn mun leysa þá námsefnisútgáfu.

Þess vegna er mjög brýnt að vel verði utan um það haldið að fjármagn verði ekki skert og frekar aukið því það má alveg eins búast við að meiri flóra verði á þessu sviði í framtíðinni en verið hefur.

Í nefndinni náðist samstaða um að leggja til eina mikilvæga breytingu, að mínu mati, við frumvarpið. Í upphaflega frumvarpinu var af einhverjum ástæðum, sem ég ætla ekki að færa rök fyrir, gert ráð fyrir að menntamálaráðherra tilnefndi í stjórn þróunarsjóðsins án tilnefningar einn úr hópi skólameistara framhaldsskóla. Fyrirkomulagið var þannig að hæstv. menntamálaráðherra átti sjálfur að handvelja þann skólameistara sem ætti að sitja þarna. Aðrir stjórnarmenn, fyrir utan þann stjórnarmann sem menntamálaráðherra tilnefnir sem formann, voru tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambandi Íslands.

En það náðist samstaða um það í nefndinni, sem er rétt að fagna, að Félag íslenskra framhaldsskóla var sett á sama sess í trausti og var einnig treyst fyrir því að tilnefna einn mann í stjórnina. Þar af leiðandi má segja að stjórnarmenn sitji allir við sama borð hvað tilnefningu varðar nema sá sem hæstv. ráðherra tilnefnir sem formann.

Frú forseti. Mér finnst ekki ástæða til þess að orðlengja þetta meira. Eins og fram kom í upphafi þá stendur öll nefndin að þessu nefndaráliti. Það er rétt að ítreka að það er fagnaðarefni þegar svo er haldið um mál í nefndum að slík samstaða náist.