133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[12:23]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Guðjón Ólafur Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 1046 um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra.

Með frumvarpi þessu er lagt til að sérstakar vistunarmatsnefndir leggi faglegt einstaklingsbundið mat á þörf aldraðra einstaklinga fyrir vistun í dvalar- eða hjúkrunarrými eða önnur úrræði í stað þjónustuhópa. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknu samræmi við gerð vistunarmats aldraðra og tryggja eins og kostur er faglegar og samanburðarhæfar niðurstöður vistunarmats um allt land.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið skrifa auk mín hv. þingmenn Ásta Möller, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Pétur H. Blöndal, Kristján L. Möller, Ingvi Hrafn Óskarsson, Sæunn Stefánsdóttir og Þuríður Backman, með fyrirvara.