133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[12:36]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er með nokkurri undrun sem ég hlustaði rétt áðan á þau skilaboð að hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, væri ekki viðstödd, ekki í húsinu og gæti ekki verið viðstödd umræðuna. Hér eru fimm mál, málefni aldraðra, heilbrigðisþjónusta, embætti landlæknis, Heyrnar- og talmeinastöð og sóttvarnarlög, sem öll eru til 2. umr. Fimm mál.

Ég er ekki í nefndinni og er ekki að hæla mér af mikilli færni eða kunnáttu í heilbrigðismálum. Ég hef ekki haft tækifæri til þess á þinginu, verið í öðru. En mér sýnast þetta allt vera hin merkustu mál og þess virði að taka um þau einhverja umræðu. Mér finnst lágmark að hæstv. heilbrigðisráðherra sé viðstaddur hana. Ég vil spyrja forseta hvort heilbrigðisráðherra sé ef til vill væntanleg eða hvaða ástæður séu fyrir fjarvist heilbrigðisráðherra á seinasta degi þingsins þegar allir eru að reyna að taka höndum saman um að greiða fyrir þingstörfum.

(Forseti (JónK): Hæstv. heilbrigðisráðherra mun ekki vera í húsinu. Mér er ekki kunnugt um hvað veldur fjarvistum hennar. Hins vegar mun ég gera ráðstafanir til að láta hana vita af þeim óskum sem fram hafa komið í umræðunni.)

Forseti. Ég tel þá að sterklega komi til greina að fresta umræðu um málið og setja hin fjögur ásamt þessu síðar á dagskrá fundarins eða fresta þeim til næsta fundar þegar heilbrigðisráðherra sér sér fært að vera viðstödd úr því engar skýringar eru nefndar. Menn geta haft skýringar, að sjálfsögðu. Geta verið í lögmætum forföllum af einhverju tagi, en engar skýringar eru nefndar og ráðherra er ekki á fjarvistarskrá og væri sæmst að vera hér og taka þátt í þeim umræðum sem hér fara fram.

Ég ætlaði að spyrja vegna þess að hér er um að ræða málefni aldraðra og þau lög sem fjalla m.a. um Framkvæmdasjóð aldraðra, þá ætlaði ég að spyrja betur um það sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir benti á, að í fyrirspurn sinni gefur heilbrigðisráðherra aðrar upplýsingar en gefnar eru í athugasemdum við frumvarp sama hæstv. ráðherra um kostnað við tiltekna hluti sem um er að ræða.

Ég ætlaði líka að gefa heilbrigðisráðherra færi á að svara úr þessum ræðustól því sem hún gat ekki svarað blaðamanni Fréttablaðsins í dag um úthlutanir úr Framkvæmdasjóði aldraðra til annars en framkvæmda og til annars en rekstrar sem menn hafa gagnrýnt nægjanlega og á að hætta. Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá því að Óperukórinn hafi fengið sérstakan styrk til þess að syngja á árinu 2006, held ég það sé. Það er auðvitað leiðinlegt að Óperukórinn dragist fullkomlega að ósekju í málið og þeir aðrir sem hér eru taldir upp og við höfum rætt reyndar áður í þessum sal, Ungmennafélag Íslands, Söngskólinn í Reykjavík, Tónaljón, Lionsklúbburinn í Búðardal og Kvenréttindafélag Íslands. Það er sérkennilegt að þau þurfi að sæta því að vera í fréttum vegna styrkveitinga af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Rétt er að minna á það að í Framkvæmdasjóð aldraðra borga menn að ég held með glaðara geði en ella sitt fé, 6.314 kr. á ári. Þegar úthlutað er úr sjóðnum milli 600.000 og 700.000 kr. standa þar á bak við 100 Íslendingar sem hver um sig hafa reitt fram 6.314 kr., til hvers? Til að gleðja heilbrigðisráðherra? Til þess að gefa henni möguleika á að afhenda styrki út um borg og bí? Til þess að kosta kosningaáróður Framsóknarflokksins og heilbrigðisráðherra? Nei. Til þess að leggja sitt fram í gott málefni sem eru framkvæmdir fyrir aldraða. Framkvæmdir fyrir aldraðan föður og móður, fyrir afa og ömmu. Framkvæmdir sem við eigum eftir að njóta góðs af ef við verðum svo heppin að komast á þann aldur — og framkvæmdir sem samfélagið allt græðir á og hagnast á með ýmsum hætti — og við ætluðum það ekki í styrkúthlutanir af þessu tagi.

Forseti. Ég tel, nema að hér verði undirtektir undir það að fresta þessu máli og hinum fjórum sem eftir eru þangað til heilbrigðisráðherra lætur sér sæma að koma til þings, að óhjákvæmilegt sé að taka málið upp í 3. umr. Ég vil segja það í leiðinni að þar er ekki við mig að sakast eða aðra hv. þingmenn, heldur eingöngu við heilbrigðisráðherra sem með því að mæta ekki í þingsal tekur ekki þátt í þeirri samvinnu um að greiða fyrir þingstörfum sem við gerum öll hin.