133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[12:52]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. formanni heilbrigðis- og trygginganefndar skrifum við undir þessi mál og erum sammála þessum nefndarálitum í umræddum málum sem við erum að taka fyrir saman um heilbrigðisþjónustu, embætti landlæknis og Heyrnar- og talmeinastöðina. Aftur á móti skrifum við undir nefndarálitið um frumvarp um heilbrigðisþjónustu með fyrirvara. Ég vil taka undir með hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni að þetta er mjög mikilvæg lagasetning sem hér er að verða. Lögð var gífurlega mikil vinna í þetta, mikið nefndarstarf fór fram, mikill fjöldi kallaður til til að vinna sérstaklega að heilbrigðisþjónustulögunum og án efa mun þetta hafa í för með sér allmargar framfarir í heilbrigðisþjónustu hér á landi.

Ég ætla að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á málinu um heilbrigðisþjónustu og hann er sá að með þessum lögum er verið að leggja niður stjórnarnefnd Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ég hef ekki verið sátt við þá breytingu og þess vegna rita ég undir nefndarálitið með fyrirvara.

Aftur á móti er að koma inn annars konar stjórn með svipuðu hlutverki nema þar eru fulltrúar neytenda kallaðir til og það er mjög jákvætt. Ég er hlynnt því og mér finnst það mikilvægt. En í ljósi reynslu minnar af störfum á þingi að heilbrigðismálum hef ég talið aðganginn að stjórnarnefndinni og þeim upplýsingum sem þar koma fram vera mjög mikilvægan, sérstaklega fyrir þingmenn í stjórnarandstöðu, því að þeir hafa ekki jafngreiðan aðgang að upplýsingum í heilbrigðisþjónustunni og stjórnarliðar sem hafa ráðuneytin nánast vinnandi með sér. Það er minn fyrirvari við þessa lagasetningu.

Það er rétt að hópur lækna var mjög ósáttur við frumvarpið eins og það var þegar það kom inn í þingið. Ég vona að okkur hafi tekist að koma til móts við þá gagnrýni sem kom fram hjá þeim læknum og að vinnan í heilbrigðisþjónustunni og á Landspítalanum geti verið í sátt eftir að frumvarpið verður að lögum. En í fyrirvara mínum var ég einnig áhyggjufull vegna þess hve læknafélögin voru andvíg ákveðnum þáttum í frumvarpinu. Við fulltrúar í heilbrigðis- og trygginganefnd sátum fund hjá Læknafélaginu í vetur þar sem þeir gerðu grein fyrir gagnrýni sinni á málið en vonandi hefur tekist að koma til móts við þá gagnrýni þannig að allir geti verið sáttir við málið.

Þetta er mjög mikilvæg lagasetning og ég þakka öllum í nefndinni fyrir gott samstarf og fagna því að okkur hefur tekist að ná þessum málum fram í þó þetta mikilli sátt.