133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

heilbrigðisþjónusta.

272. mál
[13:59]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um þrjú frumvörp, frumvarp um heilbrigðisþjónustu, um embætti landlæknis og um Heyrnar- og talmeinastöð sem í dag eru í einum lagabálki sem eru lög um heilbrigðisþjónustu. Fram hefur farið mikil vinna við þessi frumvörp og þau hafa farið í gegnum nálarauga embættismanna, stjórnmálamanna úr öllum flokkum, hagsmunasamtaka neytenda, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ og fagfélaga og þetta var niðurstaða þessara nefnda.

Mér er málið sérstaklega skylt því að ég var fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í þessari nefnd og þykir leitt að heyra að félagi minn í Sjálfstæðisflokknum, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, er ekki sammála þessu frumvarpi. Ég tel, sem reyndar er rétt hjá honum, að þetta frumvarp sé meira um skipulag heilbrigðisþjónustunnar en um heilbrigðisþjónustuna sjálfa. En það eru fleiri lög í landinu sem gilda um heilbrigðisþjónustuna, eins og lög um réttindi sjúklinga, lög um heilbrigðisstarfsmenn svo sem læknalög, sem skapa jafnframt ramma um faglegan hluta heilbrigðisþjónustunnar. Frumvarpið sem við erum að fjalla hér um skapar ramma um skipulag og eftirlit með þjónustunni. Þetta er í rauninni frumvarp um skipulag, stjórnun, ábyrgð og verkaskiptingu innan heilbrigðisþjónustunnar og hvernig staðið skuli að eftirlit með þjónustunni og þar er sérstaklega gert hátt undir höfði og gert ítarlegra ákvæðið um hlutverk landlæknis í þeim efnum. Ég tel að þetta frumvarp, þegar það verður að lögum, geti ef vel er á málum haldið leitt til endurnýjaðrar sóknar í heilbrigðisþjónustu og gert góða heilbrigðisþjónustu enn betri.

Í tilefni af orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar áðan þá deili ég ekki þeirri skoðun hans að þetta frumvarp sé ekki til bóta. Ég tel einmitt að nútímastjórnunarhættir verði hafðir í heiðri innan heilbrigðisþjónustunnar. Við erum með þessu frumvarpi að skýra enn frekar ábyrgð á þjónustunni. Ég fullyrði að það er ekkert í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir að við náum því markmiði sem hv. þingmaður nefndi áðan, þ.e. að nýta dreifistýringu og auka faglega og rekstrarlega ábyrgð innan hverrar einingar.

Það eru mörg nýmæli í þessu frumvarpi sem gaman væri að spjalla um. En sökum samkomulags um það hvernig störfum verður háttað í dag mun ég nefna aðeins örfá atriði sem ég tel vera veigamikil. Meðal annars kveður þetta frumvarp á um það hvert sé hlutverk Landspítala – háskólasjúkrahúss og sjúkrahússins á Akureyri. Í dag er í rauninni mjög fátt um það sagt í lögum hvert hlutverk þeirra er en í þessu frumvarpi er nákvæmlega kveðið á um það hvert hlutverk þeirra er og hver staða þeirra er innan heilbrigðiskerfisins og hvaða stuðning þau eiga að veita annarri heilbrigðisþjónustu. Jafnframt er almennt kveðið á um samstarf sjúkrastofnana og hvaða grunnþjónustu á að veita í öllum landshlutum og litið er á hana sem nærþjónustu. Þjónusta í landshlutunum er samhæfð sem nærþjónusta þannig að fólk getur gengið að tiltekinni þjónustu vísri á sínu svæði og jafnframt verið nokkuð öruggt um það hvert það eigi að leita varðandi aðra og flóknari þjónustu.

Ég er þeirrar skoðunar að það skipulag sem þetta frumvarp kveður á um leiði til markvissari heilbrigðisþjónustu og meiri sveigjanleika í þjónustunni en hingað til hefur verið gert ráð fyrir. Jafnframt gefur það möguleika á aðlaga betur þjónustu í heimabyggð við þarfir þeirra sem þar búa. Það verður meiri samhæfing í þjónustu í héraði. Það verður meiri samnýting á fagfólki. Það verður auðveldara að fá fagfólk til starfa á þessum svæðum. Það gefst möguleiki á að fá sérhæfðari þjónustu annars staðar að, m.a. í farandþjónustu. Þjónustan við fólkið tekur mið að þörfum fólksins en ekki öfugt. Ég er alveg sannfærð um að skipulagið sem við leggjum upp með í þessu frumvarpi mun leiða til betri nýtingar fjármagns.

Annað atriði sem ég tel vert að tala um er að betur er kveðið á um sjálfstæða aðila innan heilbrigðisþjónustunnar. Það má segja að sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn hafi varla verið nefndir á nafn innan heilbrigðisþjónustunnar en það er gert í þessu frumvarpi og staða þeirra ákvörðuð og hvernig staðið skuli að því að stuðla að því að rekstur þeirra og þjónusta sé með þeim hætti sem við viljum taka þátt í og hún komi til góða sem viðbót við þá skipulegu heilbrigðisþjónustu sem er á vegum opinberra aðila. Það er jafnframt kveðið fastar á um heimildir til samninga við sjálfstæða aðila um rekstur í heilbrigðisþjónustu og hvernig staðið skuli að slíkum málum.

Að öllu samanlögðu tel ég í fáum orðum sagt að það frumvarp sem við erum að fjalla um núna og munum greiða atkvæði um á eftir feli í sér aukin tækifæri fyrir heilbrigðisþjónustuna, bæði fyrir fagfólkið og jafnframt til að þróa þjónustuna í meira mæli en hingað til.

Eitt að lokum. Ég vil nefna að stjórnarnefnd ríkisspítalanna sem með þessu frumvarpi er lögð niður í því formi sem hún hefur verið fram til þessa er í rauninni eina stjórn heilbrigðisstofnunar sem ekki hefur verið aflögð fram til þessa. Þess í stað kemur fagstjórn eða ráðgjafarnefnd öllu heldur sem verður skipuð níu aðilum, fulltrúum neytenda. Gagnrýnt hefur verið að þarna sé verið að skipta út fulltrúum ráðherra og fulltrúum stjórnmálaflokka fyrir fulltrúa neytenda en burt séð frá því tel ég að fulltrúar neytenda séu betur til þess fallnir að mæla fyrir munn neytenda, draga fram áhyggjuefni og umkvartanir neytenda varðandi þjónustu og skipulag þjónustu á viðkomandi sjúkrahúsi. Ég held að við getum fagnað því.

Jafnframt vil ég nota þetta tækifæri til að fagna því þetta frumvarp er komið fram. Þar liggur mikil vinna að baki. Ég vil endurtaka það aftur og svara athugasemdum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að það fer fyrst og fremst eftir þeirri hugmyndafræði sem stofnunin er rekin eftir á hverjum tíma hvort dreifistýring er notuð eða ekki, það þarf ekki að kveða á um það í lögum. Það er nóg að vita að slíkar stjórnunarkenningar eru hafðar til hliðsjónar í nútímarekstri og það er sú lína sem gefin hefur verið í ríkisrekstri, að nota dreifistýringu. Ég tel að þetta frumvarp gefi mikla möguleika í þá veru og mikla möguleika á auknu samstarfi við sjálfstæða aðila.