133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

umferðarlög.

388. mál
[14:42]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir kom hér inn á varðandi skilaboð í þessu frumvarpi til ökumanna. Það eru skilaboð til þeirra að harðara verði tekið á ökuníðingum og þeim sem aka glannalega á vegunum. Það eru skilaboð til þeirra sem eru í farmflutningum að ganga betur frá farmi því annars muni koma til öðruvísi og meiri sektir en verið hefur áður. Það er vel.

Ég vil líka geta þess vegna orða hv. þingmanns varðandi mál sem Jóhanna Sigurðardóttir flutti, að inn í þessa breytingartillögu eru komin ágæt efnisatriði varðandi þingsályktunartillögu frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur vegna aukins hraða á rafmagns- eða vélknúnum tækjum eins og ég hef komið að áður.

Ég endurtek það sem ég sagði áðan að hér eru með beinum hætti skýr skilaboð út í umferðina um að harðara verði tekið á ökuníðingum og þeim sem ekki ganga frá farmi á flutningabílum sínum. Það er alveg ótrúlegt að fylgjast með og sjá hvernig á hefur verið haldið nú um margra mánaða skeið, kæruleysi og um leið er þetta náttúrlega ekkert annað en ógnun við umferðina.