133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

umferðarlög.

388. mál
[15:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Örfá orð um þetta mál, breytingu á umferðarlögum. Ég er áheyrnarfulltrúi fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í hv. samgöngunefnd. Ég styð frumvarpið en vil þó slá nokkra varnagla.

Ég styð það sjónarmið að auka beri umferðaröryggi með öllum tiltækum ráðum innan þeirra sanngjörnu marka sem það er hægt. Frumvarpið miðar í sjálfu sér að því. Ég vil þó vara við því að verið sé að setja lög og reglur um þessa þætti sem aðra sem ekki er hægt, eða illmögulegt, að framkvæma. Slíkt verður marklítið. Menn verða að halda sig innan þeirra marka í laga- og reglugerðarsetningu að koma í veg fyrir að um leið og maður er genginn út úr húsi sé maður nánast sjálfkrafa farinn að brjóta lögin. Það þarf að gæta hófs í lagasetningum eins og með þetta ákvæði sem var í frumvarpinu, um að takmarka að næturlagi akstur þeirra sem eru nýkomnir með bílpróf. Það má vel vera að mörg slys verði vegna aksturs unglinga að næturlagi en það er fráleitt að mínu mati að innleiða svona lagað í lög enda felldi samgöngunefnd það út úr frumvarpinu. Það er sjálfsagt að vera með öll þau öryggisatriði sem hægt er en varast samt þessa ofboðslegu löngun til að setja lög og reglur og boð og bönn um allt sem ekki er síðan hægt að framfylgja með eðlilegum og skynsamlegum hætti.

Varðandi flutning á farmi, sem hér hefur verið rætt um, tel ég að þar þurfi að setja skýrari reglur um öryggi farms á stórum bílum. Margir þeirra eru hlaðnir á stöðvum, bílstjórarnir koma ekkert endilega nálægt því hvernig hlaðið er af því að þeir eru ráðnir sem bílstjórar eingöngu. Ekki er nú kaupið of hátt hjá þeim og stundum er meira að segja skipt um bílstjóra á leiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, annar bílstjóri getur þurft að taka við á miðri leið. Mér finnst að það eigi að setja ábyrgðina líka yfir á eigendur bílanna og þá sem gera þá út, að þeir fari eftir reglum. Þetta tel ég mjög mikilvægt að sé tekið inn. Það er erfitt að gera hliðstæðar kröfur til bílstjóra og skipstjóra, þá verður a.m.k. að hafa laun í samræmi við það, þ.e. ef bílstjórinn ætti að bera eins mikla og víðtæka ábyrgð á bíl og farmi og skipstjórar gera á skipi. Þá þarf líka að taka það inn í starfslýsingar og starfsreglur bílstjóranna og greiða þeim kaup samkvæmt því. Gott og vel, það má vel skoða það.

Ég tek svo undir þau orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um það að vegirnir verða að bera þá umferð sem um þá fer. Það þyrfti að setja öryggisstuðla á vegi í miklu ríkari mæli en nú er þannig að stórir bílar og miklir flutningar fari ekki um vegi sem þeir bera ekki út frá öryggissjónarmiðum. Okkur gengur afar hægt að koma samgöngumálum í landinu í viðunandi horf, vegáætlanir eru skornar niður og í ljósi þess þurfum við að stilla umferðina af miðað við þá vegi sem við höfum svo að þeir beri hana.

Frú forseti. Ég styð frumvarpið og þær breytingartillögur sem bornar eru fram.