133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

íslensk alþjóðleg skipaskrá.

667. mál
[15:43]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir þeir sem hér hafa talað fagna framkomnu frumvarpi eins og ég gerði reyndar við 1. umr. Ég verð að segja að á mig runnu tvær grímur á tímabili. Mótmæli þau og rök sem fram voru borin fyrir nefndina af hálfu ASÍ og fleiri aðila vinnumarkaðarins voru þess eðlis að ekki hefði verið hægt að samþykkja frumvarpið óbreytt. Sem betur fer tókst að laga það ákvæði.

Við erum með mál í höndunum eftir um það bil tuttugu ára meðgöngu, eftir því sem fram kom í máli sumra sem komu á fund nefndarinnar. Það kom jafnframt fram hjá þeim að skattalegt hagræði væri ekki jafnmikið og liti út fyrir í frumvarpinu frá fjármálaráðherra og það yki ekki líkur á að skipin skiluðu sér heim. Það væri ekki nóg með að skattalega hagræðið væri minna en í þeim löndum sem skipin eru skráð í nú þegar, eins og t.d. í Færeyjum, heldur væru skipafélögin búin að leggja í umtalsverðan kostnað við að skrá skipin sín í nýjum löndum. Það kostar t.d. eina og hálfa milljón að skrá skip, bara skráningargjaldið, í Færeyjum. Þess utan er ýmiss konar annar kostnaður. Það þarf heilmikið að hanga á spýtunni til að skipafélögin velji að koma heim með skipin aftur.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að ég vona að fjármálaráðuneytið lagi lagaheimildir sínar þannig að það megi raunverulega laða skipafélögin heim aftur. Mér finnst mjög leiðinlegt að vita til þess að ekkert skip sigli undir íslenskum fána í dag. Mér finnst ekki sómi af því fyrir íslenska þjóð.