133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[16:39]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Vissulega má taka undir það að það sé ákveðinn áfangasigur þegar málið var afgreitt frá nefndinni með þeim breytingartillögum sem við það hafa verið gerðar og með þeim ákvæðum sem horfa til framfara. Það var ekki sársaukalaust að ná því samkomulagi sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði frá í ræðu sinni því eins og glöggir áhugamenn um þingstörf hafa tekið eftir hefur breytingartillaga minni hlutans, sem dreift var á þskj. 1206, verið dregin til baka, en hluti af þeirri breytingartillögu var breytingartillaga sem á rætur sínar að rekja til vændisfrumvarpsins svokallaða, þ.e. breytingartillaga sem gerir ráð fyrir því að sá sem lætur af hendi eða heitir greiðslu eða öðrum ávinningi fyrir vændi skuli sæta sektum eða fangelsi, allt að einu ári. Sú tillaga hefur nú verið dregin til baka en í staðinn náðist samkomulag um að setja inn breytingartillögu sameiginlega frá allri nefndinni um það að fyrningarfresturinn í allra alvarlegustu málunum, ofbeldismálum gegn börnum, félli niður. Því ber að fagna.

Eins og ég segi, það samkomulag var knúið fram með vilja meiri hluta nefndarinnar. Ég er ekki alls kostar sátt við þessar málalyktir, hefði kosið að tillagan sem gerir kaup á vændi refsivert fengi að ganga til atkvæða en hafði ekki stuðning fyrir því sjónarmiði mínu í nefndinni. Það verður því að bíða betri tíma að sú tillaga komi til afgreiðslu en ég er algerlega sannfærð um að fylgi við þá tillögu hefur aukist verulega á þeim árum sem ég hef flutt hana hér og á þeim tíma sem kvennasamtök á Íslandi hafa barist fyrir því að þessi leið yrði farin. Við höfum í fórum okkar áskorun til alþingismanna frá 14 kvennahreyfingum á Íslandi sem skora á okkur að hvetja til þess að þessi leið verði farin, þ.e. að ábyrgðin af vændinu sé sett á herðar þeim sem ber ábyrgðina, á herðar þeim sem býr til eftirspurnina, á herðar kúnnanum sem kaupir vændiskonuna. Þetta er mannréttindamál í mínum huga. Mér finnst rétt að benda fólki á að veruleikinn sem við horfum á í vændismálum á Íslandi er fréttaefni á síðum blaðanna í dag.

Krónikan, nýtt vikutímarit, er með stóra og mikla úttekt á vændi á Íslandi. Hún segir það skipulagt og hún segir það útbreitt og það er athyglisvert þegar málið er skoðað að þau rök sem við höfum fært fram, sem höfum verið að berjast fyrir hinni sænsku leið, þ.e. að ekki sé unnt að gera neinn greinarmun á vændi annars vegar og mansali hins vegar, eru algerlega staðfest í úttekt blaðsins. Aldrei verður dregin nein vitræn lína á milli vændis og mansals. Þess vegna er það svo að vilji þingmenn á Alþingi Íslendinga og ríkisstjórnin í alvöru berjast gegn mansali, eins og menn segja í orði kveðnu, þá verða menn að leggja til atlögu við vændið. Til þess er til ákveðin aðferð sem hefur reynst öflug í Svíþjóð og tregðan við að innleiða hana hér er mér áhyggjuefni. Ég lýsi yfir því að baráttan fyrir því að hún nái fram að ganga er ekki búin, henni er ekki lokið, ekki á meðan við lesum um það að á Íslandi starfi klúbbar sem þyki með því allra harðasta í vændisheiminum í dag og vitað sé til þess að kynlífsathafnir séu teknar upp á myndbönd og oftar en ekki séu fíkniefni höfð þar um hönd. Einn viðmælandi Krónikunnar, sem þekkir til þessa heims, segir að stundum sé stofnað til klúbbanna í kringum eina eða tvær vændiskonur, oftast erlendar, sem komi hingað til lands í stuttan tíma í senn og þá í boði þess sem heldur utan um rekstur klúbbsins. Reglulega komi svo nýjar vændiskonur og er þá boðað til nýrrar samkomu klúbbmeðlima.

Hæstv. forseti. Ef þetta er ekki mansal þá má ég hundur heita. Hér er lýst mansali í miðbæ Reykjavíkurborgar. Við sem höfum tök á því að reisa lagaskorður við því að þetta haldi áfram hlaupum undan sem gungur værum. Það er mjög miður. En eins og ég segi, baráttunni er ekki lokið. Vændisheimurinn á Íslandi — ég veit ekki hvort ég á að segja að hann hafi fengið byr undir báða vængi, það er kannski ekki rétt eða gott að nota það hugtak — fer vaxandi, hætturnar í honum aukast, hann verður viðbjóðslegri með hverjum deginum sem líður og ábyrgðin á því að skyggnast inn í þennan heim og uppræta það sem þar fer fram er á okkar herðum.

Hæstv. forseti. Ég viðurkenni og tek undir að málið hefur verið nokkuð vel unnið í nefndinni, og ekki bara nokkuð vel, það hefur tekið langan tíma og hefur verið afar vel unnið í nefndinni. Þó að ég sé ekki sátt við hv. formann allsherjarnefndar akkúrat núna á lokasprettinum hef ég verið mjög sátt við vinnuna og vinnulagið í nefndinni sem hefur verið vandað. Mjög vel hefur verið farið ofan í hvert einasta atriði sem hefur valdið hugarangri eða áhyggjum og tilefni hefur verið til að skoða vel. Þess vegna vil ég líka meina að tilefni sé til langrar umræðu og lýsi því yfir að mér sýnist óviðunandi að við þingmenn, sem erum kosin lýðræðislegri kosningu til að standa vörð um ákveðnar hugsjónir og ákveðin sjónarmið, skulum æ ofan í æ vera rekin inn í þá kró að geta ekki talað um okkar hjartans mál með eðlilegum hætti vegna þess að hv. meiri hluti á Alþingi kýs að láta megnið af málunum bíða til síðustu tveggja daganna og gubba þeim svo hér í gegn í afar óvandaðri vinnu. Þetta er ekki líðandi og skömm að því að svona skuli gerast ár eftir ár eftir ár. Ég lít svo á að við eigum að fá notið okkar lýðræðislega réttar til að ræða þau mál sem okkur liggja á hjarta en eins og ég segi, hér verð ég að stytta mál mitt mjög í ljósi þess sem liggur fyrir með samningi um að þinghaldi skuli ljúka í dag.

Ég fagna þeirri rýmkun sem verið er að leggja til í frumvarpinu, sérstaklega varðandi 2. mgr. 2. gr., þ.e. að það skuli einnig teljast nauðgun og varða við sömu refsingu og mælt er fyrir um í 1. mgr. greinarinnar að notfæra sér geðsjúkdóm eða aðra andlega fötlun manns til að hafa við hann samræði eða kynferðismök eða ef þannig er ástatt um hann að öðru leyti að hann getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Þetta er gríðarleg bót.

Ég þakka sömuleiðis fyrir og fagna því að fyrningarfresturinn í alvarlegustu brotunum gegn börnum skuli vera afnuminn og að þau brot fyrnist ekki. Ég fagna hækkuðum lögaldri og tek undir það sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði í máli sínu þegar hann skýrði þá breytingu. Ég fagna því að fellt skuli niður refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu. Þó tel ég að með því að gera það einhliða og innleiða ekki um leið ábyrgð kaupandans séum við að skapa okkur ákveðna hættu. Ég held að úr því að refsinæmi fyrir vændi liggur nú hvergi, hvorki hjá þeim sem selur sig né hjá þeim sem kaupir, heldur eingöngu hjá millilið ef um millilið er að ræða, séum við að skapa ákveðna hættu á því að erfitt verði að leiða til lykta fyrir dómi mál af því tagi þar sem hvorugur aðilinn er að baka sér sök.

Réttarvernd kynfrelsis er ekki tryggð, virðulegi forseti, með lögunum og það finnst mér vera mesta áhyggjuefnið. Ég talaði fyrir því í nefndinni að við skoðuðum ofan í kjölinn greinar og tillögur sem komið hafa fram frá hæstaréttarlögmanninum Atla Gíslasyni, varaþingmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem hefur skrifað nokkuð margar og efnismiklar greinar um kynfrelsi og hefur stutt mál sitt afar góðum rökum. Hann telur að þar sem við séum í 1. mgr. 194. gr. að leggja svona mikla áherslu á verknaðaraðferðina sé verið að gera of lítið úr varanlegum andlegum afleiðingum nauðgana, þær skipti minna máli fyrir vikið. Atli Gíslason segir í grein sem hann skrifar í Morgunblaðið þann 19. febrúar 2006, með leyfi forseta:

„Er efnisleg breyting hvað verknaðaraðferðina varðar næsta lítil frá gildandi nauðgunarákvæði. Er það reyndar staðfest í efnismikilli greinargerð með frumvarpinu þar sem meðal annars er tekið fram að eldri dómar í nauðgunarmálum hafi áfram fordæmisgildi varðandi refsinæmi háttseminnar. Það vekur athygli að í greinargerðinni er engu að síður staðhæft að með frumvarpinu sé dregið úr núgildandi áherslu á verknaðaraðferðir og megináhersla lögð á að með nauðgun fari fram kynmök án samþykkis.“

Hæstv. forseti. Það væri tilefni til að fara betur ofan í rökstuðning og röksemdafærslu Atla Gíslasonar varðandi þessa þætti. Hann rekur í greininni tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 3. maí 2002 um varnir gegn ofbeldi sem beinist gegn konum en þar er mælst til þess að hvers kyns kynferðisleg háttsemi gagnvart konu sem ekki er samþykk henni skuli verða refsiverð og einnig þótt þolandinn berjist ekki á móti. Sú regla er lögfest í ýmsum engilsaxneskum ríkjum, svo sem á Englandi og Írlandi. Í ljósi þessara tilmæla og grunnhugsunar að baki mannréttindaákvæðinu um friðhelgi einkalífs telur Atli Gíslason að frumvarp dómsmálaráðherra fullnægi ekki þeim skuldbindingum ríkisins að tryggja friðhelgi kvenna til líkama og sálarlífs, að kynferðislegur sjálfsákvörðunarréttur þeirra verði virtur í reynd.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég reyndi að fá gesti nefndarinnar til að ræða rök Atla Gíslasonar og okkar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu tiltekna máli. Ég fann það mjög fljótt að bæði dómskerfið, refsiréttarnefnd, laganefnd Lögmannafélagsins og fleiri sem um þetta atriði voru spurð voru ekki komin það langt í umræðunni, eða ekki búin að opna það mikið á röksemdafærsluna sem að baki liggur, að ég teldi umhverfið sem á að starfa eftir þessum lögum vera orðið nægilega þroskað til þess að taka við breytingu af því tagi sem ég hefði viljað leggja hér til til þess að réttarvernd kynfrelsis yrði tryggð með þessum lögum. Ég stend því að frumvarpinu og breytingunni á 194. gr. laganna þó að ég hefði viljað fara öðruvísi að og ganga þar lengra til móts við þær hugmyndir sem Atli Gíslason hefur kynnt og lagt fram. Sem sagt, ég tel mikilvægt að við höldum áfram að vinna að því að réttarvernd kynfrelsis verði leidd í lög á Íslandi.

Undir það tekur fjöldi umsagnaraðila. Ég nefni sem dæmi umsögn frá UNIFEM á Ísland þar sem því er fagnað að minni krafa skuli gerð á ofbeldisþætti nauðgunar með því að nú hafi „hótun“ komið í stað „hótun um ofbeldi“. UNIFEM telur þó æskilegra að skilyrða ekki nauðgunarhugtakið á þann hátt sem hér er gert. Nauðgunarhugtakið sé enn tengt við verknaðinn, þ.e. ofbeldi eða hótun. Orðið nauðgun ætti ekki að þurfa að skilgreina frekar, samanber orðið þjófnaður eða orðið vændi sem standi sannarlega ein og sér án frekari skilgreiningar í núgildandi löggjöf.

Þetta var tilvitnun í umsögn UNIFEM á Íslandi sem send var okkur nefndinni meðan við fjölluðum um málið.

Hæstv. forseti. Í lok máls míns langar mig aðeins til að fara örfáum fleiri orðum um það sem ég tel að heyri til okkar friðar varðandi baráttuna gegn mansali sem við höfum tekið þátt í í orði kveðnu, baráttu sem ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa háð á þessum vettvangi. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur það aftur og aftur komið fram, og verið undirstrikað í samþykktum Norðurlandaráðs, að það sem skortir fyrst og fremst hjá ríkisstjórnum Norðurlandanna í þessum efnum séu í sjálfu sér ekki alþjóðlegir samningar því þeir eru til staðar. Öll þessi ríki hafa fullgilt þá eða öllu heldur flest því ekki höfum við fullgilt Palermo-samninginn enn eins og kom í ljós í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar áðan. Það sem skortir til að við getum borið höfuðið hátt, allar Norðurlandaþjóðirnar, í þessum efnum er fjármagn og pólitískur vilji, segja samþykktir og ábendingar frá Norðurlandaráði aftur og aftur. Ríkisstjórnir Norðurlandanna hafa reynt að standa upp og reka af sér þetta slyðruorð. Ríkisstjórnir Danmerkur, Noregs, Finnlands og ég held Svíþjóðar líka hafa allar gefið út aðgerðaráætlanir gegn mansali og ég veit að Danir eru a.m.k. komnir með áætlun nr. tvö í gildi en í dönsku áætluninni, sem gilt hefur frá 2003–2006, voru lagðar á ári hverju á þessu þriggja ára tímabili 10 millj. danskar krónur í baráttuna gegn mansali.

Ég spyr hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, í fyrirspurnatíma á Alþingi Íslendinga fyrir skemmstu, hvort við ætlum ekki að fara að gera einhverja aðgerðaráætlun í þessum efnum. Þann 24. janúar 2006 svarar hann fyrirspurnum mínum á þann hátt að hann hafi sem ráðherra frekar látið verkin tala en sitja við að semja áætlanir. Hann tiltekur þau verk sem hann er stoltastur af í þessum efnum og telur að hann sé að vinna í þágu baráttunnar gegn mansali en það eru breytingarnar á lögreglulögunum og upptaka greiningardeilda og annarra slíkra þátta. Ég vil leyfa mér að gagnrýna hvernig hæstv. dómsmálaráðherra hefur staðið að þessum málum, hversu linur hann hefur verið í að fylgja fordæmi Norðurlandaþjóða. Hann segir í umræðum við mig á þinginu 24. janúar að hann telji mikilvægara að kröftum ráðuneytisins verði varið til að vinna að slíkum umbótamálum frekar en að setjast niður og semja einhverjar áætlanir. Hann segir að ef hann ætti að setjast niður og semja áætlanir í staðinn fyrir að beita sér fyrir því sem hann hefur gert á þessu sviði væri ástandið ekki eins gott og raun ber vitni. Ég vil þá benda hæstv. ráðherra á að skoða Krónikuna og lesa sér til um alvarleika þess sem er að gerast í miðbæ Reykjavíkurborgar í skjóli nætur.

Hæstv. forseti. Liðið hefur á tíma minn og þingmenn eru farnir að ókyrrast vegna þess að hér á að vera atkvæðagreiðsla kl. 5. Ég vil að lokum taka fram að ég hefði viljað að málinu hefði lyktað öðruvísi en því er að lykta. Ég harma að ekki skyldi hafa náðst samkomulag um að setja breytingartillögu okkar minni hluta allsherjarnefndar í atkvæðagreiðslu á þinginu til að kanna hversu mikið fylgi er við þá tillögu. En ég sit uppi með það. Ég sit uppi með þann harm í brjósti. Ég hef einnig tekið þá ákvörðun að halda áfram að berjast fyrir þessum málum á þessum vettvangi sem öðrum hér eftir sem hingað til.