133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

almenn hegningarlög.

20. mál
[16:58]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Refsinæmið hvílir á milliliðnum eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Það hvílir ekki á kaupandanum og það hvílir ekki á seljandanum. Ég er afar sátt við að þeir og þær sem leiðast út í vændi skuli ekki þurfa að sitja undir því að íslensk lög telji að þau fari með sök að lögum. Það er bráðnauðsynleg réttarbót og henni fagnaði ég í ræðu minni. En ég tel brýnt að í staðinn verði refsinæmið sett á herðar þess sem kaupir, þess sem býr til eftirspurnina, því það eru ekki alltaf milliliðir. Sannleikurinn er sá að það eru karlarnir sem í krafti stöðu sinnar og peninga hafa val en ekki þeir eða þær sem leiðast út í vændi og ábyrgðin á að vera á herðum þess sterka, þess sem hefur valið til að kaupa ekki aðgang að líkama annars fólks. Það er þetta sem ég gagnrýni.