133. löggjafarþing — 93. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[17:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er frumvarp til vegalaga að koma til 2. umr. Eitt af tilgreindum markmiðum í frumvarpinu var að vegamálastjóri hefði skýra heimild til að framselja veghald til þriðja aðila. Til viðbótar var lagt til að heimild til gjaldtöku vegna byggingar og reksturs samgöngumannvirkja verði almenn í stað þess að þurfa sérstaka lagasetningu. Í frumvarpinu eru því mjög sterk ákvæði til að einkavæða og framselja veghald í landinu. Í 4. gr. er m.a. kveðið á um að vegagerð skuli „við framkvæmd vegamála leitast við að bjóða út alla hönnun, nýbyggingar, viðhald, þjónustu og eftirlit.“

Næði þetta fram að ganga mundi það m.a. koma hart niður á stöðum úti á landi, á starfsstöðvum Vegagerðarinnar, ef allt yrði boðið út og engin starfsemi þar fyrir hendi. Þess vegna hef ég og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboð ekki getað stutt þetta frumvarp eins og það er, sömuleiðis vegna gjaldtökunnar. Ég hef lagt fram breytingartillögu þar sem kveðið er á um að þetta verði afturkallað. Nú veit ég að í bígerð er að breytingartillaga komi inn milli 2. og 3. umr. sem taki af verstu þætti frumvarpsins. Ég mun kalla breytingartillögu mína til baka og fresta afgreiðslu hennar þangað til ég sé hver verða afdrif mála milli 2. og 3. umr.

Engu að síður getum við hvorki stutt 4. gr. sem felur í sér einkavæðingu á allri starfsemi Vegagerðarinnar, heimild til hennar, né svo opna heimild fyrir gjaldtöku á umferð, en við vonumst til að frumvarpið fái endurbætur milli 2. og 3. umr. þannig að við getum stutt það, herra forseti.