133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:30]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru ákaflega sláandi upplýsingar sem hér liggja fyrir um feril þessarar ríkisstjórnar og reyndar allan feril Sjálfstæðisflokksins í þessum málum sem byrjar á því, strax á árinu 1992, að skerða barnabæturnar harkalega eftir að hann kemst til valda og færa úr ótekjutengda hlutanum yfir í tekjutengda hlutann. Þó tekur steininn úr þegar framsóknarmenn skipta inn á fyrir Alþýðuflokkinn eftir 1995 því að þá er gengið enn lengra í þessa átt og um skeið voru barnabætur á Íslandi nánast tekjutengdar að fullu. Má ég þá minna á að hér skipta náttúrlega skerðingarmörkin máli. Tekjutengingin byrjar að virka mjög neðarlega þannig að skattalegt hagræði barnafjölskyldna hverfur hratt áður en hægt er að tala um háar tekjur í því sambandi. Um tíma, á þessu árabili frá 1996/1997 og fram að þessu, hefur Ísland verið í algerri sérstöðu hvað það varðar að meðaltekjufólk hefur nánast einskis skattalegs hagræðis notið þó að það sé með mörg börn. Ég þekki þess hvergi dæmi annars staðar í skattkerfinu að annaðhvort séu ekki skattafrádrættir eða beinar greiðslur sem vega í miklu ríkari mæli upp á móti auknum framfærslukostnaði barnmargra fjölskyldna.

Hér voru tekin risaskref aftur á bak hvaða það varðar að tryggja barnafjölskyldum sæmilega afkomu og jafna hlut þeirra borið saman við aðrar fjölskyldur í landinu en sú er auðvitað hugsunin með barnabótum eða skattalegu hagræði af þessu tagi. Þessi ferill er ósköp einfaldlega ríkisstjórninni til skammar og það bætir sáralítið hlut hennar þó að hún sýni núna örlítinn lit, knúin til þess af verkalýðshreyfingunni korteri fyrir kosningar.