133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hér er fólk að tala sem sér bara ekki til sólar, það bara sér ekki til sólar fyrir einu eða neinu. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Sjáum til Sólar í Straumi.) Hækkanir á barnabótum voru ákveðnar fyrir rúmum tveimur árum á Alþingi þannig að það hefur ekkert með það að gera sem gerðist í sumar í tengslum við kjarasamningana — nema þá atriði sem ég gleymdi að nefna áðan sem er það að nú eru barnabætur greiddar til 18 ára aldurs. Það kom út úr þeim samningum, það skal viðurkennt.

Það sem skiptir mestu máli er að kaupmáttur þessara hópa batnar stórkostlega vegna ákvarðana sem stjórnarmeirihluti hér á Alþingi hefur tekið. Og hvað hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gert í því samhengi? (Gripið fram í.) Hafa þeir fagnað? (Gripið fram í.) Hefur hv. þingmaður fagnað? Ég minnist þess ekki. Þeir hafa gagnrýnt og hafa hlaupið eftir öllum þeim sem gagnrýna þetta. Þeir gerðu það síðast í gær. Heimur þessara aðila, herra forseti, virðist einskorðast við lýsingar frá greiningardeildum matsfyrirtækjanna úti í heimi. (ÖS: Tekurðu ekki mat á verkó?) (Gripið fram í.)

Hv. þingmaður sem hér galar fram í tekur meira mark á greiningardeildunum úti í heimi en verkalýðshreyfingunni, það er alveg augljóst, og hann sér ekki til sólar. Ég verð að segja eins og vinur minn, Björn á Hofsstöðum, sagði: Drengir, sjáið þið ekki veisluna?

Þetta fólk sér ekki hvað hefur verið að gerast hér á undanförnum árum. Það sér það bara ekki, sennilega af því að það vill það ekki. (ÖJ: Hverjir eru í minni veislu?)