133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

svar við fyrirspurn – frumvarp um vátryggingarsamninga.

[18:39]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra kemst ekki undan því að viðurkenna að það var verkalýðshreyfingin sem knúði hæstv. ríkisstjórn til að skila örlitlu af því til baka sem ríkisstjórnin hefur skert barnabæturnar um á kjörtímabilinu. Þegar hæstv. ráðherra heldur því fram að barnabótunum hafi verið breytt þannig að þær séu nú greiddar til 18 ára aldurs barna gleymir hæstv. ráðherra að skýra það út fyrir fólki sem kannski er að hlusta á þessar umræður að það er alls ekki til allra barna, heldur eingöngu til þeirra sem hafa tekjutengdar barnabætur. Hin búa við það að barnabæturnar eru einungis greiddar til sjö ára aldurs barna. Þó er það þannig að kostnaður við grunnskólabörn er áætlaður um 250 þús. kr. á ári sem er engu minna en greitt er fyrir börn í leikskóla.

Ég er viss um að hæstv. ráðherra hefur ekki hugmynd um hvenær barnabætur byrja að skerðast hjá t.d. einstæðum mæðrum. Það var við 77 þús. kr. á síðasta ári og verkalýðshreyfingin knúði það upp í 90 þús. kr. Þá byrja barnabætur að skerðast, og kannski tvöfalt meira hjá hjónafólki.

Veit hæstv. ráðherra það að Ísland er eitt þriggja landa innan OECD sem greiðir ekki barnabætur til allra, heldur er með þær tekjutengdar? Yfirleitt eru þessar barnabætur ótekjutengdar. Og man ég rétt að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi ályktað um að það ætti ekki að skerða barnabæturnar? Er það misminni hjá mér, hæstv. ráðherra?

Það er eins og það er, ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fara aldrei eftir landsfundaályktunum, ekki frekar en gert er hjá framsóknarmönnum. (Gripið fram í.) Það var vel gert að minna framsóknarmenn á barnakortin (Forseti hringir.) sem þeir lofuðu 1999 (Forseti hringir.) og þeir hafa svikið, (Forseti hringir.) barnakortin eru ekki enn komin til framkvæmda.