133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[18:51]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Frumvarpið sem við greiðum nú atkvæði um setur stóriðju skorður um losun gróðurhúsalofttegunda vegna skuldbindinga okkar gagnvart Kyoto-bókuninni. Það er grunnur og tilgangur þessa frumvarps. Frumvarpið setur jafnframt skilaboð fyrir framtíðina um að almennt megi búast við að þrengi um heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda vegna nýrra alþjóðlegra skuldbindinga eftir skuldbindingatímabilið 2008–2012. Það er mikilvægt að senda þau skilaboð strax að ókeypis losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið er takmörkunum háð á heimsvísu og hér á Íslandi. Frumvarpið getur ekki á nokkurn hátt talist hvetjandi til frekari uppbyggingar stóriðju hér á landi. Markmið stjórnvalda um 50–75% minnkun losunar til 2050 eru sterk skilaboð til atvinnulífs og almennings um að hefja markvissa þróun í átt að loftslagsvænni atvinnustarfsemi og frumvarpið geymir skýr skilaboð um að stjórnvöldum er full alvara að taka þátt í alþjóðlegu átaki gegn loftslagsbreytingum og vera í fararbroddi ríkja heims í því átaki.

Það er full ástæða til að fara með fyllstu gát varðandi virkjanir og stóriðju og það á sérstaklega við vegna náttúruverndarsjónarmiða. Við megum ekki rasa um ráð fram við virkjun fallvatna og háhitasvæða og breyta ásýnd landsins meira og hraðar en við kærum okkur um.

Margir eru eindregnir andstæðingar stóriðju af þessum sökum. Við megum hins vegar ekki láta slíka andstöðu blinda okkur gegn staðreyndum. Virkjun fallvatna og jarðhita getur verið neikvæð frá náttúruverndarsjónarmiðum en nýting endurnýjanlegrar orku er jákvæð frá loftslagssjónarmiðum, hvort sem hún er til innanlandsnota eða til framleiðslu á alþjóðamarkaði.

Til þessa dags, herra forseti, eru engar hömlur á losun koldíoxíðs frá stóriðju en með samþykkt þessa frumvarps eru fyrst settar slíkar hömlur. Stjórnarandstaðan hér á Alþingi tel ég að kjósi að styðja ekki þetta frumvarp sem ég ætla að verði mörgum umhverfisverndarsamtökum mikil vonbrigði.