133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[19:07]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við 2. umr. í dag varpaði ég fram spurningum vegna þessa þingmáls vegna þess að ósamræmis gætir milli þess hvað stendur í umsögn fjármálaráðuneytisins um vistunarmatið og svarsins sem ég fékk frá hæstv. ráðherra um styrki sem greiddir hafa verið úr Framkvæmdasjóði aldraðra.

Í umsögn fjármálaráðuneytisins segir að kostnaður við vistunarmat sé greiddur af sveitarfélögunum. Við þá lagabreytingu sem nú er að verða mun þessi greiðsla koma úr ríkissjóði. En þegar ég fer að skoða svarið sem ég fékk í fyrradag um Framkvæmdasjóð aldraðra kemur í ljós að úr Framkvæmdasjóði aldraðra fóru 4 millj. kr. á síðasta ári til landlæknisembættisins og skýringin er framkvæmd á vistunarmati.

Þegar við afgreiddum þetta og skrifuðum öll undir nefndarálitið var ég náttúrlega ekki búin að fá þetta svar og trúði því sem stóð í umsögninni.

Ég vil gjarnan fá skýringar á því frá hæstv. ráðherra hvernig á þessu standi, þ.e. 4 millj. kr. úr Framkvæmdasjóði aldraðra til framkvæmdar vistunarmats, en í umsögninni frá fjármálaráðuneytinu er þetta allt frá sveitarfélögunum og á að verða allt frá ríkinu á eftir. Áður en við afgreiðum þetta mál héðan vil ég gjarnan fá skýringar á þessum atriðum.