133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

vegalög.

437. mál
[19:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið var samþykkt við 2. umr. breytingartillaga frá Guðmundi Hallvarðssyni við þá málsgrein sem fjallar um það að skylda Vegagerðina til að einkavæða alla sína þjónustu og við það hefur 4. gr. náttúrlega lagast mikið.

Ég hef gert grein fyrir þeim fyrirvörum sem við höfum varðandi 14. gr. Við erum alfarið á móti 17. gr. sem slíkri, en með þeirri takmörkun sem sett var inn í 14. gr., þ.e. að framsal á veghaldi megi einungis vera tímabundið, verður annað yfirbragð á þessu frumvarpi, en sú breytingartillaga sem ég flutti hljóðaði m.a. upp á það að allir þjóðvegir landsins skyldu í vera í þjóðareign og takmörkun á framsali vegamálastjóra. (Gripið fram í.)

(Forseti (BÁ): Forseti biður hv. þingmenn að gefa hv. þm. Jóni Bjarnasyni tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Þakka þér fyrir. (Gripið fram í.) Það er greinilegt að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er kannski ekkert ljúft að fella þessi einkavæðingarákvæði burt úr lögunum en ég tel það fagnaðarefni og met meiri hlutann og ríkisstjórnina að verðleikum fyrir að hafa tekið þeim sinnaskiptum og gert það, þrátt fyrir að einstakir einkavæðingarsinnar innan Sjálfstæðisflokksins eigi bágt með að sitja undir því.