133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:27]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir þessa lýsingu hv. þingmanns varðandi umferðina í Reykjavík, þar er ýmislegt sem betur má fara að mínu viti. Mér finnst líka, hv. þingmaður, og ber nú vel í veiði því að hér eru a.m.k. þrír þingmenn Reykjavíkur í salnum, að menn þurfi jafnvel að hugsa málin upp á nýtt.

Þegar maður horfir á áætlanir um það hvernig leysa eigi umferðarvandann í Reykjavík varðandi Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Hlíðarfót, held ég að það sé kallað, með göngum undir Öskjuhlíð og síðar auðvitað með Sundabrautinni eða fyrr eftir atvikum, þá ráðgera menn að breyta verulega landslaginu á Kringlumýrarbraut og byggja þar mislæg gatnamót, stór og mikil, og væntanlega ætla menn að byggja mislæg gatnamót á Háaleitisbraut, væntanlega á Grensásvegi og væntanlega á Lönguhlíð. Síðan á að byggja stokk á Miklubrautinni en það var upplýst í samgöngunefnd um daginn að kílómetri í stokk kostaði að lágmarki milljarð, minnir mig, meira en að búa til jarðgöng. Og ef ég man rétt voru nefndar tölur varðandi Kringlumýrarbraut upp á tæpa 4 milljarða, mislæg gatnamót.

Ég vildi bara beina einni hugmynd til hv. Reykjavíkurþingmanna, í fullri vinsemd og virðingu, með það að markmiði að horfa svolítið öðruvísi á þessi mál. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ekki væri leið að hreyfa bara ekkert við þessum fernum gatnamótum sem ég taldi upp og fara hreinlega inn með jarðgöng fyrir austan Grensás undir holtið og koma upp með þau rétt fyrir austan Snorrabraut, við brúna þar, að hreyfa bara ekkert við yfirborðinu og þar með kæmist umferðin sem kæmi sunnan að og norðan að greiðlega um þau gatnamót sem fyrir eru og við værum búin að fá alvöruakstursbraut frá austri til vesturs til þess að flytja þá umferð. Þessu vil ég varpa fram til hv. þingmanna til að hugleiða fyrir framtíðina. Mér finnst menn ekki hugsa (Forseti hringir.) nógu langt inn í framtíðina.