133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

samgönguáætlun fyrir árin 2007--2010.

574. mál
[20:31]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég veit rétt um áætlanirnar varðandi Miklubraut og mislæg gatnamót þá ætla menn að gera mislæg gatnamót við Grensásveg og á Háaleitisbraut. Ég geri ráð fyrir að þessi mislægu gatnamót kosti um 1,5–2 milljarða hver, 4 milljarðar fari í Kringlumýrarbraut og sennilega 2 milljarðar í Lönguhlíð. Síðan ef menn ætla að byggja 1–2 km stokk er það milljarður fyrir hvern kílómetra, eftir því sem upplýst var um daginn í samgöngunefnd.

Ég vil minna menn á að í fullbúnum Fáskrúðsfjarðargöngum með öllum búnaði kostaði hver km tæpar 700 millj. Þannig að ef verið er að horfa á þetta í raunkostnaði kann einfaldlega að vera betra að velja að gera braut í jarðgöngum fyrir austan Grensás og að Snorrabraut og hleypa umferðinni þannig austur og vestur undir núverandi gatnakerfi. Það kann að vera hægt að gera það fyrir miklu minni fjármuni en verið er að tala um í öllum slaufunum sem ætlunin er að búa til og leyfa svo bara umferðinni að vera ofan á jörðinni sem þarf að komast þvert til suðurs og norðurs og kemur úr hverfunum og inn á núverandi Miklubraut sem yrði þá áfram ofan jarðar.

Þetta bendi ég á, hæstv. forseti, vegna þess að mér sýnist í fljótu bragði að í framtíðarverkefnum sem tengjast Miklubraut séu menn að tala um 12–14 milljarða þegar upp er staðið, þegar búið er að leysa það að ekki séu gatnamót með ljósum og menn geti keyrt á mislægum gatnamótum alla leið vestur í bæ eða austur um eftir því um hvort er að ræða. Þetta held ég að þingmenn Reykjavíkur ættu að hugleiða. Ég bendi á þetta vegna þess að ég er mikill áhugamaður um að leysa svona framtíðarvandamál með jarðgöngum.