133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[21:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég sé enga ástæðu til að fullgilda þennan samning eða þessa samninga og get vísað til þess sem ég sagði um það mál í fyrri umræðu þegar ég tjáði mig um það.

Í raun er þá einu skýringu hægt að hugsa sér að gefa á því að við gætum þurft á því að halda, sé ásetningur eða vilji stjórnvalda að draga hingað erlendan herafla til heræfinga. Það er vandséð að á þessi ákvæði geti á nokkurn hátt reynt og allra síst nú ef við erum að taka hér ákvörðun um og sameinast um vonandi að skilgreina íslensku friðargæsluna sem hreina borgaralega starfsemi og minni líkur á að það reyni á réttarstöðu hennar sem liðs í einhverjum hernaðarlegum skilningi og gagnkvæmni þar um. Langeðlilegasta afgreiðslan á þessum málum af okkar hálfu væri því að vísa til fyrirvara okkar við inngöngu í Atlantshafsbandalagið og gera öðrum NATO-þjóðum og þá samstarfsþjóðum þeirra grein fyrir því að við hefðum ekki áform um að hér yrði erlendur herafli, hvorki til dvalar né við æfingar, og þá eru öll þessi ákvæði óþörf.

Það væri langeðlilegasta framkvæmd þessara mála eins og málin standa nú þegar erlendur her er farinn úr landinu og ekkert kallar á að við reynum að draga hingað á Íslandsstrendur og á íslenskt yfirráðasvæði erlendan her til þess að stunda eitthvert heræfingabrölt. Ég hef enga ástæðu til að ætla að aðrar aðildarþjóðir NATO hefðu gert við það neinar athugasemdir þó tilkynning af Íslands hálfu á þessum grundvelli og með vísan til fyrirvara okkar þegar við gengum í NATO hefði einfaldlega verið send og þar með tilkynnt að við hygðumst ekki aðhafast í þessu máli og ekki fullgilda þessa samninga.

Það er svona eiginlega hálfhallærislegt að Ísland sé að gera þetta núna. Meira en hálf öld er liðin frá því að þessi samningur var undirritaður af Íslands hálfu en aldrei fullgiltur af ástæðum sem við reyndar þekkjum. Það er engin sérstök ástæða og ekkert sem kallar á að gera það nú þannig að við erum andvíg þessum samningi og munum greiða atkvæði gegn fullgildingu hans.