133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

íslenska friðargæslan.

443. mál
[21:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli framsögumanns og formanns utanríkismálanefndar þá ritaði ég undir álitið með fyrirvara og ég vil örstutt gera grein fyrir honum. Sá fyrirvari lýtur eingöngu að ákvæðum 3. gr. frumvarpsins eins og því verður nú væntanlega breytt á grundvelli samstöðu sem tekist hefur í utanríkismálanefnd. Það er greinin sem fjallar um heimildir friðargæsluliða til þess að bera vopn.

Þó það sé vissulega komið í annað og betra samhengi með þeirri breytingu á markmiðsgrein frumvarpsins sem nú hefur tekist samstaða um þá er það eftir sem áður þannig að það er og verður sjálfsagt alltaf verulegt álitamál hvort við viljum yfir höfuð fara út á þá braut að íslenskir ríkisborgarar við störf erlendis beri vopn. Ástæða þess að ég geng ekki lengra í málinu en svo að gera við það fyrirvara er einfaldlega sú að auðvitað er hægt að færa fyrir því rök að öryggi þeirra geti við einhverjar kringumstæður verið betur borgið með slíkum hætti. Þó má vissulega líka færa oft rök sem eru fullgild að jafnvel geti það orðið á kostnað öryggis þeirra að menn freistist til að vera við aðstæður eða hegða sér með öðrum hætti ef þeir telja sig hafa einhverja meinta eða ímyndaða vörn í vopnum sem kann svo að reynast lítil sem engin eða jafnvel verri en engin því auðvitað er það stundum þekkt að óvopnaðir friðargæsluliðar jafnvel njóta meiri friðhelgi og komast betur frá skærum en hinir sem vopnin bera. Fyrirvari minn lýtur sem sagt að þessu.

Að öðru leyti vil ég eingöngu segja að ég fagna því að samstaða tókst um að gera þær breytingar á markmiðsgrein frumvarpsins eða almennu ákvæðunum sem skilgreina hlutverk friðargæslunnar og verkefni friðargæsluliða erlendis. Sú samstaða er efnislega byggð á breytingartillögu okkar í minni hluta utanríkismálanefndar en með lagfæringum eins og síðan kemur fram á þingskjali 1340 og framsögumaður gerði grein fyrir. Þær breytingar ganga út á að taka af allan vafa að um er að ræða borgaralega skilgreinda starfsemi, að þetta er þátttaka í alþjóðlegri friðargæslu og að senda borgaralega sérfræðinga til starfa við friðargæsluverkefni. Síðan eru þau skilgreind í fjórum stafliðum eins og við gerðum í breytingartillögu okkar. Ég vil sérstaklega fagna d-liðnum sem ég gerði að umtalsefni hér við 1. umr. og lagði mikið upp úr, þ.e. þátttaka í fyrirbyggjandi verkefnum sem miða að því að hindra að ófriður brjótist út á svæðum þar sem óstöðugleiki ríkir.

Þetta opnar á möguleikann að senda fólk til stuðnings heimamönnum á svæðum þar sem ófriðlega horfir, án þess þó að átök hafi kannski brotist út og reyna að aðstoða við að ná niður spennu og koma á stöðugleika þar sem jarðvegur er til staðar fyrir það að alvarleg átök geti síðar brotist út. Þetta er hugsun sem er mjög að ryðja sér til rúms í friðargæslufræðum og friðargæsluumræðum og Norðurlöndin hafa verið í fararbroddi þeirra ríkja sem hafa þróað þessa hugmyndafræði. Ekki síst hefur verið um þetta mikil umræða innan Norðurlandaráðs sem ég hef tekið þátt í. Ég er því ákaflega ánægður með að sjá þessa grundvallarhugsun koma þarna inn. Hvort sem mikið á nú eftir að reyna á þetta eða ekki á næstu árum þá er alla vega þessi hugsun komin þarna á blað og í markmiðsgrein frumvarpsins. Með þessum fyrirvara munum við styðja þetta mál og fögnum þeirri samstöðu sem hefur tekist um það.

Ég vil bara að lokum segja að það er ákaflega mikilvægt vegna fólksins sem í hlut á og vinnur þessi vandasömu og stundum hættulegu störf að það ríki eins mikil pólitísk sátt og samstaða um verkefnin og það starf sem þarna er unnið því auðvitað er aldrei hægt að útiloka þá möguleika að hlutir geti farið úrskeiðis og erfiðir atburðir orðið, jafnvel mannslíf tapast og þá er mikilvægt að sem best samstaða sé um hlutina og ekki til að dreifa neinum djúpstæðum pólitískum ágreiningi eða hörðum átökum um það á hvaða grundvelli þessi starfsemi er byggð.