133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

686. mál
[21:49]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég styð þetta mál heils hugar og tel það af hinu góða. Ég tel það lið í því að takast á við skuldbindingar okkar varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. En ég hef leyft mér að gerast svo djörf þar sem ég flutti fyrir skemmstu, eða lagði hér fram á Alþingi, frumvarp til laga um breytingu á þessum sömu lögum sem kemur inn á sömu þætti, þ.e. hvernig megi með ákveðinni lagasetningu og fyrirsögn í lögum tryggja að þau ökutæki sem eru algengust á götunum valdi sem minnstum skaða á umhverfi.

Við höfum orðið vitni að því eftir að vörugjald á pallbílunum alræmdu, stóru bensínhákunum, var lækkað að þeir eru orðnir ótæpilega margir og frekir í umferðinni hér í þéttbýlinu. Á dögum svifryks og ótæpilegrar losunar gróðurhúsalofttegunda frá umferð tel ég einboðið að við nýtum þau hagrænu tæki sem við höfum til þess að reyna að takmarka bifreiðar af þessu tagi í umferðinni.

Á þskj. 1288 hef ég leyft mér að breyta frumvarpi mínu yfir í breytingartillögu við þetta frumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að ökutæki af því tagi sem ég lýsti, þ.e. pallbílar sem eru innan ákveðinna þyngdarmarka, beri full vörugjöld en njóti ekki lengur þeirrar undanþágu sem þeir njóta í dag. Slík ráðstöfun ætti að takmarka fjölda þeirra í umferðinni og þar af leiðandi leggja af mörkum ákveðna sambærilega þætti og frumvarpið að öðru leyti gerir til þess að takmarka losun og minnka mengun.