133. löggjafarþing — 94. fundur,  17. mars 2007.

skipulögð leit að krabbameini í ristli.

221. mál
[21:51]
Hlusta

Frsm. heilbr.- og trn. (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um skipulagða leit að krabbameini í ristli, frá heilbrigðis- og trygginganefnd.

Með tillögu þessari er lagt til að heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefji, í samráði við landlækni, undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi þannig að skipuleg leit hefjist 1. júlí 2007. Krabbamein í ristli og endaþarmi er næstalgengasta krabbameinið meðal Íslendinga og önnur algengasta dánarorsökin af völdum krabbameina. Niðurstöður erlendra rannsókna hafa sýnt fram á að fækka megi dauðsföllum af völdum ristilkrabbameins með skipulagðri skimun. Því fyrr sem meinið greinist, því meiri líkur eru á lækningu. Ýmis nágrannalönd hafa þegar tekið upp skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi eða eru að undirbúa slíkt. Nefndin telur brýnt að skimun fyrir ristilkrabbameini verði tekin upp hið fyrsta í íslensku heilbrigðiskerfi.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að í stað dagsetningarinnar „1. júlí 2007“ komi: á árinu 2008.

Kristján L. Möller var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Valdimar L. Friðriksson áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu. Undir álitið skrifa Guðjón Ólafur Jónsson, Ásta Möller, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Ingvi Hrafn Óskarsson, Drífa Hjartardóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Þuríður Backman.

Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram í fyrsta sinn fyrir nokkrum árum síðan af félaga okkar Árna Ragnari Árnasyni, en 1. flutningsmaður er Drífa Hjartardóttir. Mikil vinna hefur farið fram innan heilbrigðissamfélagsins til þess að skoða þessa tillögu og vinna að því að hún nái fram að ganga og hefur nefndin nú afgreitt þingsályktunina til síðari umr. með nefndaráliti.